Fara í efni

Heimsþekktir matreiðslumenn og fjöldi erlendra blaðamanna á "Food and fun"

FoodandFun2005
FoodandFun2005

Rúmlega 60 erlendir blaðamenn koma hingað til lands vegna "Food and fun" hátíðarinnar sem hefst í dag og stendur fram á sunnudag. Er ljóst að hátíðin, sem nú er haldin í fjórða sinn, vekur sívaxandi athygli erlendis.

Flestir koma blaðamennirnir frá Bandaríkjunum en einnig frá níu þjóðum Evrópu. Munu þeir fylgjast með 12 heimsþekktum matreiðslumeisturum sem koma til að taka þátt í hátíðinni. "Food and fun" er samstarfsverkefni Icelandair, íslensks landbúnaðar og "Iceland Naturally" verkefnisins og er tilgangurinn að kynna kosti íslenskra matvæla sem víðast. Jafnframt tengist "Food and fun" vetrarhátíð Reykjavíkurborgar. Yfirvöld ferðamála eru einn meginstuðningsaðili hátíðarinnar og Sturla Böðvarsson samgönguráðherra opnar hana með formlegum hætti með hádegisverðarboði í Matvælaskólanum í Kópavogi. Þar verða m.a. viðstaddir hinir erlendu blaðamenn, keppendur og dómarar, auk fjölda annarra sem tengjast hátíðinni.

Heimsþekktir matreiðslumenn á veitingastöðum borgarinnar
Hátíðin hefur tvö meginþemu. Annars vegar munu hinir erlendu matreiðslumeistarar koma sér fyrir í eldhúsum nokkurra bestu veitingahúsa höfuðborgarinnar og elda með íslenskum starfsbræðrum sælkeramáltíðir fyrir gesti þá daga sem hátíðin stendur yfir. Veitingastaðirnir eru Grillið, Siggi Hall, Rauðará, 3 Frakkar, Hótel Holt, La Primavera, Einar Ben, Argentína, Apótekið, Perlan, Sjávarkjallarinn og Vox.

Keppni þeirra bestu
Hins vegar taka matreiðslumeistararnir þátt í alþjóðlegri keppni sem fram fer laugardaginn 19. febrúar í Listasafni Íslands. Keppnin hefst kl. 13 og er opin fyrir almenning. Keppnin gengur þannig fyrir sig að meistarakokkarnir hafa 3 klukkustundir til að útbúa þriggja rétta máltíð þar sem eingöngu er notað íslenskt hráefni. Síðan metur 6 manna alþjóðleg dómnefnd árangurinn og veitir verðlaun fyrir besta fiskréttinn, besta kjötréttinn og besta eftirréttinn. Verðlaunin verða veitt í hátíðatkvöldverði á Nordica hótelinu og þar verður jafnframt útnefndur "Iceland Naturally matreiðslumaður ársins 2005" Vefsíða Food and Fun