Hótel Ísafjörður með fyrstu Vakaflokkunina á Vestfjörðum
Mynd: Trausti Már Gretarsson, Halldór Karl Valsson, Hólmfríður Vala Svavarsdóttir, Ásgerður Þorleifsóttir og Daníel Jakobsson með viðurkenningar Vakans.
Hótel Ísafjörður hf. sem rekur þrjá gististaði; Hótel Ísafjörð - Torg, Hótel Ísafjörð - Horn og Hótel Ísafjörð - Gamla (áður Gamla gistihúsið) auk veitingastaðarins Við Pollinn hljóta nú viðurkenningu Vakans. Hótel Ísafjörður hf. er þar með fyrsta fyrirtækið á Vestfjörðum sem fær viðurkenningu Vakans.
Auk þess fá allir staðirnir undir hatti Hótels Ísafjarðar hf brons merki í umhverfishluta Vakans. Hótelin fá hvort um sig 3ja stjörnu gæðaflokkun og Gamla fær 3ja stjörnu gæðaflokkun sem gistiheimili.
Rótgróið fyrirtæki
Hótel Ísafjörður var opnað árið 1982. Árið 2007 keypti félagið Gamla gistihúsið sem er í tveimur byggingum í Mánagötu. 2013 var svo Hótel Ísafjörður | Horn opnað. Allt í allt eru 74 herbergi samanlagt á þessum gististöðum þar af 60 með baði.
Síðastliðinn vetur voru miklar endurbætur gerðar á Hótel Ísafirði þar sem að 22 af 36 herbergjum voru endurnýjuð og eru nú sem ný. Á teikniborðinu er svo stækkun á gestamóttöku og áætlað er að koma upp sauna og pottaaðstöðu. Það styrkir möguleika okkar á ráðstefnumarkaði og gerir okkur betur kleift að taka á móti gestum okkar, segir Daníel Jakobsson, hótelstjóri á Hótel Ísafirði.
60 manns í vinnu þegar að mest lætur
Hjá Hótel Ísafirði starfa að jafnaði um 13 manns allt árið en um 60 manns þegar mest lætur á sumrin. Mikill vöxtur hefur verið í vestfirskri ferðaþjónustu eins og um land allt. Við viljum bjóða upp á framúrskarandi þjónustu á öllum okkar stöðum. Það að fara í gegnum Vakaúttekt er mjög hollt og gott lærdómsferli, aðbúnaður og þjónusta við gesti er skoðuð, alla ferla þarf að yfirfara og endurmeta og huga þarf að fræðslu og menntun starfsfólks. Þetta gerði okkur gríðarlega gott segir Daníel.
Nú þegar að Hótel Ísfjörður hefur fengið viðurkenningu Vakans er það von Daníels að fleiri vestfirsk fyrirtæki fylgi á eftir, sæki um í Vakann og fari í úttektarferli.
Við óskum forsvarsmönnum og starfsfólki Hótels Ísafjarðar hf innilega til hamingju með frábæran árangur.