Hringnum lokað - Markaðsstofa höfuðborgarsvæðisins stofnuð
Nú í byrjun apríl var Markaðsstofa höfuðborgarsvæðisins stofnuð. Markaðsstofan er áfangastaðastofa fyrir höfuðborgarsvæðið allt og eru stofnaðilar Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) og Ferðamálasamtök höfuðborgarsvæðisins. Markaðsstofan er vettvangur til að markaðssetja og þróa áfangastaðinn höfuðborgarsvæðið í heild og ná þannig betri árangri.
Með stofnun áfangastaðastofu fyrir höfuðborgarsvæðið er verið að loka hringum ef svo má segja en um er að ræða ákveðinn lokaáfanga á ferli sem hófst að forgöngu Ferðamálastofu fyrir um áratug. Starfsfólk Ferðamálastofu hafði frá árinu 2014 kynnt sér gerð áfangastaðaáætlana (Destination Management Plans) víða um heim og mótað tillögur um með hvaða hætti beita mætti þessari aðferðafræði á heildstæðan hátt á Íslandi. Verkefninu, sem í upphafi var kallað stefnumarkandi stjórnunaráætlanir, var fundinn farvegur innan Vegvísis í ferðaþjónustu, sem unnin var af stjórnvöldum og greininni í sameiningu, og Ferðamálastofu og Stjórnstöð ferðamála falin umsjón þess. Ráðin var að verkinu erlendur ráðgjafi og sérfræðingur á þessu sviði, Tom Buncle, og í kjölfarið unnin mjög umfangsmikil stefnumótunar- og skipulagsvinna um allt land.
Áfangastaðaáætlanir verða til
Vinnan var fjármögnuð af Ferðamálastofu en markaðsstofur landshlutanna stýrðu áætlunargerð hver sínu svæði og kölluðu til fjölda fólks. Í öllu ferlinu var lögð mikil áhersla á samtal og samráð opinberra aðila, fyrirtækja, ferðaþjónustunnar og íbúa. Má fullyrða að um er að ræða umfangsmestu skipulagsvinnu á sviði ferðaþjónustu sem átt hefur sér stað hérlendis. Samtals er talið að yfir 1.500 manns hafi komið að vinnunni þegar allt er talið. Áfangastaðaáætlanir hvers landshluta utan höfuðborgarsvæðisins litu síðan dagsins ljós hver af annarri í framhaldinu.
Áfangastaðastofur um allt land
Virk aðkoma sveitarfélaga og öflugt stuðnings- og stoðkerfi er lykillinn að því að áfangastaðaáætlanir skili árangri, en áætlununum er ætlað að vera lifandi plagg. Markaðsstofur landshlutanna gegndu sem fyrr segir lykil hlutverki við gerð áfangastaðaáætlana en til að þróa áætlanirnar áfram var talið nauðsynlegt að víkka út hlutverk markaðsstofanna þannig að innan þeirra væri til víðtækari þekking og reynsla. Þá var talið nauðsynlegt að sveitarstjórnir hefðu virka aðkomu að vinnunni, enda aðeins þannig hægt að setja fram og fylgja eftir aðgerðaráætlunum sem kalla á aðgerðir af hálfu hins opinbera. Ráðuneyti ferðamála gerði í framhaldinu samninga við landshlutasamtök sveitarfélaga um stofnun áfangastaðastofa á þeirra svæðum, þann fyrsta í árslok 2020. Áfangastaðastofur starfa í umboði sveitarfélaga viðkomandi landsvæðis og eru samstarfsvettvangur viðkomandi sveitarfélaga, ríkis og ferðaþjónustunnar.
Hringnum lokað á Höfuðborgarsvæðinu
Með stofnun Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins hafa áfangastaðastofur verið stofnaðar í öllum landshlutum. Samhliða var áfangastaðaáætlun höfuðborgarsvæðisins 2023-2026 birt, sú fyrsta sem unnin er fyrir höfuðborgarsvæðið.
Stjórn SSH, stjórn Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins, formaður ferðamálasamtaka höfuðborgarsvæðisins og
ráðherra: Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri Kópavogs, Þór Sigurgeirsson bæjarstjóri Seltjarnarness, Rósa Guðbjartsdóttir
bæjarstjóri Hafnarfjarðar, Guðbjörg Oddný Jónasdóttir Hafnarfirði, Jakob Einar Jakobsson framkvæmdastjóri
Jómfrúarinnar, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir borgarfulltrúi í Reykjavík og formaður stjórnar Markaðsstofunnar, Regína
Ásvaldsdóttir bæjarstjóri Mosfellsbæjar og formaður stjórnar SSH, Lilja Alfreðsdóttir menningar-, viðskipta- og
ferðamálaráðherra, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Sævar Birgisson Mosfellsbæ, Eva Jósteinsdóttir framkvæmdastjóri
rekstrarsviðs Center Hotels, Stella Stefánsdóttir Garðabæ, Páll Björgvin Guðmundsson framkvæmdastjóri SSH, Þórir
Garðarsson formaður ferðamálasamtaka höfuðborgarsvæðisins og Elísabet Sveinsdóttir Kópavogi.