Fara í efni

Áskoranir og úrræði ferðaþjónustufyrirtækja í heimsfaraldri - Ný rannsókn og upptaka af kynningarfundi

Stillur á Snæfellsnesi. -Mynd: Ragnar Th. Sigurðsson
Stillur á Snæfellsnesi. -Mynd: Ragnar Th. Sigurðsson

Ný skýrsla sem Rannsóknamiðstöð ferðamála hefur unnið fyrir Ferðamálastofu er komin út, ásamt upptöku af fyrirlestri rannsóknarmiðstöðvarinnar um meginniðurstöður hennar. Skýrslan fjallar um upplifun og reynslu fólks í ferðaþjónustu af því að takast á við það krísuástand sem kórónuveirufaraldurinn skapaði. Má nálgast skýrsluna og fyrirlesturinn hér að neðan.

Um er að ræða eigindlega rannsókn og var gagna aflað með dagbókarskrifum, viðtölum og rýnihópum stjórnenda í ferðaþjónustu og stoðkerfi greinarinnar. Markmiðið var að fá góða innsýn í stöðu fyrirtækjanna og áskoranir, hvernig ferðaþjónustuaðilar hafi upplifað aðgerðir stjórnvalda og til hvaða aðgerða þeir hafi gripið rekstri sínum til varnar.

Aðlögunarhæfni og seigla íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja umtalsverð

Ljóst er að seigla íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja er umtalsverð og felst hún ekki síst í mikilli aðlögunarhæfni greinarinnar. Ferðaþjónusta er í eðli sínu vara augnabliksins. Í því felst að fjölmargir ytri þættir, sem innlendir ferðaþjónustuaðilar hafa takmarkað vald yfir, hafa mikil áhrif á atvinnugreinina. Mjög mikilvægt er að rýna og greina þá þætti sem aðilar ferðaþjónustunnar hér á landi geta unnið með til að styrkja atvinnugreinina og gera hana betur undirbúna til að mæta óvæntum áföllum.

Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru:

  1. Fjárhagsleg staða fyrirtækja fyrir faraldur, eðli rekstrar og umfang, aðgengi að fjármagni og staðsetning höfðu áhrif á getu þeirra til að ráða við afleiðingar heimsfaraldurs
  2. Opinberar mótvægisaðgerðir voru ferðaþjónustunni mikilvægar
  3. Framkvæmd mótvægisaðgerða var gagnrýnd
  4. Kallað var eftir auknum stuðningi og skilningi af hálfu stjórnsýslu sveitarfélaga
  5. Uppsagnir starfsfólks fólu í sér miklar áskoranir fyrir rekstraraðila
  6. Faraldurinn undirstrikaði mikilvægi fjölbreyttra tengsla og klasasamstarfs til að takast á við áskoranir fyrirtækja
  7. Andlegt álag, kvíði og vonleysi meðal rekstraraðila er ástand sem ekki hefur fengið næga athygli

Um er að ræða aðra skýrsluna í rannsókn Rannsóknamiðstöðvar, ferðamála fyrir Ferðamálastofu, á áhrifum COVID-19 á ferðaþjónustuna hér á landi og þeim þáttum sem styðja við seiglu greinarinnar við áföll eða draga úr henni. Fyrri skýrsluna, sem kom út í júlí 2021,  má finna hér.

Nánar upplýsingar

Skýrslan:
En maður bara límir brosið upp og er hress og glaður: Áskoranir og úrræði ferðaþjónustufyrirtækja í heimsfaraldri

Upptaka frá fyrirlestri