Hver verður gæðaáfangastaður Íslands 2015?
Ferðamálastofa kallar eftir umsóknum vegna evrópsku EDEN- samkeppninnar um gæðaáfangastaði í Evrópu, European Destination of Excellence. Yfirskrift þessa árs er Matartengd ferðaþjónusta.
Helstu skilyrði fyrir umsókn
- Lögð er sérstök áhersla á verkefni þar sem matvælaframleiðendur og ferðaþjónustuaðilar vinna í sameiningu að sjálfbærri nýtingu og kynningu á svæðisbundnum matvælum.
- Mikilvægt er að þau verkefni/staðir sem sótt er um fyrir séu þegar í uppbyggingu og að umsækjendur hafi sýnt frumkvæði á þessu sviði a.m.k. síðustu þrjú árin.
- Um getur verið að ræða staði af öllum stærðum og gerðum en með hliðsjón af markmiðum EDEN samkeppninnar skal áfangastaðurinn/svæðið ekki vera á meðal fjölsóttustu ferðamannastaða landsins.
Umsóknarfrestur
Umsóknarfrestur er til 19. júní 2015. Ekki er um eiginleg umsóknarform að ræða en í upplýsingablaði hér að neðan er rakið nákvæmlega hvaða upplýsingar þurfa að koma fram. Allar nánari upplýsingar fást hjá Hrafnhildi Ýr Víglundsdóttur á netfangið hrafnhildur@ferdamalastofa.is.
Hvað er EDEN?
Markmið EDEN-verkefnisins er að vekja athygli á gæðum, fjölbreytileika og sameiginlegum einkennum Evrópskra áfangastaða og kynna til sögunnar nýja, lítt þekkta, áfangastaði vítt og breitt um Evrópu þar sem áhersla er lögð á ferðaþjónustu í anda sjálfbærni.
Samkeppni annað hvert ár
Annað hvert ár er haldin samkeppni um gæða áfangastaði í Evrópu og er nýtt þema í hvert sinn. Með því að hafa þau breytileg er leitast við að gefa sem flestum gerðum af stöðum og ferðaþjónustu kost á þátttöku. Auglýst er eftir umsóknum í hverju landi og einn áfangastaður valinn frá hverju þátttökuríki í Evrópu. Verðlaunaafhendingin og sýning með kynningu á öllum verðlaunaáfangastöðunum fer fram í tengslum við ferðamálaráðstefnuna The European Tourism Forum sem haldin er í Brussel á hverju hausti. Allir EDEN verðlaunahafar fá töluverða umfjöllun og kynningu í fjölmiðlum í Evrópu í tengslum við verðlaunaafhendinguna og á vefsíðum og kynningarritum EDEN verkefnisins eftir það. EDEN verðlaunin eru bæði viðurkenning á gæðum viðkomandi áfangastaðar og geta nýst í markaðssetningu.
Tengslanet
Annar tilgangur EDEN-verkefnisins er að mynda tengslanet þeirra staða sem öðlast útnefningu. Þannig geti staðir aukið samvinnu sín á milli, skipst á upplýsingum, deilt góðum ráðum o.s.frv., öllum til hagsbóta.
------------
Fyrirvari:
EDEN-verkefnið nýtur fjárhagstuðnings COSME-verkefnis (2014-2020) Evrópusambandsins.
Upplýsingarnar sem er að finna á þessari vefsíðu endurspegla eingöngu skoðanir höfundar og eru alfarið á hans ábyrgð. Ekki skal líta svo á að þær endurspegli skoðanir framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins eða Framkvæmdaskrifstofu lítilla og meðalstórra fyrirtækja (EASME) og framkvæmdastjórnin eða EASME bera ekki ábyrgð á mögulegri notkun á upplýsingum sem hér er að finna.