Hvernig eru kjör og aðstæður erlends starfsfólks?
Fyrsti hádegisfyrirlestur ársins á vegum rannsókna- og tölfræðisviðs Ferðamálastofu verður haldinn föstudaginn 8. febrúar næstkomandi. Kynnt verður ný og áhugaverð rannsókn á kjörum og aðstæðum erlends starfsfólks í ferðaþjónustu. Fyrirlestrarnir eru haldnir í samvinnu við Íslenska ferðaklasann, í húsnæði hans að Fiskislóð 10 i Reykjavík.
Fá innsýn í hvað má betur fara og auka skilning
Sumarið 2018 hófu Íris Hrund Halldórsdóttir, sérfræðingur hjá Rannsóknarmiðstöð ferðamála [RMF] og Magnfríður Júlíusdóttir, lektor í landfræði við Háskóla Íslands, vinnu við rannsókn sem ætlað er að gefa dýpri innsýn í kjör og aðstæður erlends stafsfólks í greinum tengdum ferðaþjónustu á Íslandi. Markmiðið er annars vegar að fá yfirlit yfir hvað má betur fara í starfsumhverfi erlends starfsfólks í ferðaþjónustu með viðtölum við fulltrúa félaga og stofnana, einkum staðbundinna verkalýðsfélaga, og hins vegar að fá aukinn skilning á upplifun fólks sem kemur til starfa í ferðaþjónustu hér á landi.
Sjónum beint að völdum svæðum
Í rannsókninni eru bornar saman áskoranir og aðstæður eftir svæðum, sem búa við mismunandi ásókn ferðamanna og árstíðasveiflu. Nánar tiltekið er sjónum beint að völdum svæðum á Suðurlandi (Mýrdalshreppi og Bláskógarbyggð), Reykjanesbæ og Vestfjörðum.
Hvati rannsóknar í íslensku samhengi er mikill vöxtur í störfum tengdum ferðaþjónustu á síðustu árum. Tölur um hlutfall erlendra starfsmanna eftir atvinnugreinum sýna mikla aukningu erlendra starfsmanna í einkennandi greinum ferðaþjónustunnar. Gögn Hagstofu Íslands sýna að næstum helmingur starfsmanna í hótel og veitingaþjónustu eru erlendir ríkisborgarar.
Hluti af nýstofnuðum rannsóknarhópi
Rannsakendurnir eru hluti af nýstofnuðum rannsóknarhópi um vinnuafl í ferðaþjónustu, sem leiddur er af Rannsóknarmiðstöð ferðamála. Auk íslenskra fræðimanna í rannsóknarhópnum eru rannsakendur frá öðrum Norðurlöndum og Bretlandi.
Fyrirlestrar annan hvern föstudag
Líkt og fram kemur í nýrri birtingaráætlun rannsókna og tölfræðisviðs verða fyrirlestrar sem þessi haldnir annan hvern föstudag. Þeir eru í samvinnu við Íslenska ferðaklasann og fara fram í húsnæði hans að Fiskislóð 10, 2. hæð. Kynningunum verður einnig streymt beint og upptaka gerð aðgengileg á netinu. Næsti fyrirlestur er föstudaginn 22. febrúar.
Brú á milli vísindasamfélagsins og atvinnulífisins
Hádegisfyrirlestrarnir eru hugsaðir sem vettvangur til að koma niðurstöðum úr könnunum og rannsóknum á ferðamálum, sem hið opinbera stendur fyrir, á framfæri við atvinnugreinina og samfélagið. En einnig eru þeim ætlað að skapa tækifæri fyrir rannsakendur í vísindasamfélaginu til að koma niðurstöðum á framfæri sínum til sama hóps. Með kynningunum vill Ferðamálastofa þannig leitast við að mynda brú á milli vísindasamfélagsins og atvinnulífisins.