Hvernig tókst til á Vestnorden?
Sem kunnugt er lauk 18. Vestnorden ferðakaupstefnunni sl. miðvikudag. Hún var að þessu sinni haldin í Þórshöfn í Færeyjum en Ferðamálaráð Færeyja, Grænlands og Íslands standa að kaupstefnunni. Undanfarin ár hefur hún verið haldin á Íslandi annað hvert ár en hitt árið til skiptis í Færeyjum og á Grænlandi. Næsta Vestnorden kaupstefna verður haldin í Reykjavík að ári liðnu, nánar tiltekið dagana 13.-14. september 2004.
Kaupendur komu víða að
Á Vestnorden kynna ferðaþjónustuaðilar í Færeyjum á Grænlandi og á Íslandi þjónustu sína fyrir ferðaheildsölum utan svæðisins á stuttum fundum sem búið er að tímasetja áður en kaupstefnan hefst. Að þessu sinni voru það 113 aðilar sem kynntu vöru sína og þjónustu og voru þeir sem fyrr flestir frá Íslandi, eða 70 talsins. Um 90 ferðaheildsalar eða kaupendur komu til að kynna sér hvað þessi fyrirtæki hafa að bjóða og komu þeir víða að. Bróðurparturinn kom frá V.-Evrópu og af einstökum löndum voru flestir frá Danmörku , Þýskalandi, Frakklandi og Svíþjóð. Einnig voru þarna aðilar lengra að komnir t.d. frá Bandaríkjunum og alla leið frá Ástralíu.
Afþreyingarþátturinn áberandi
Magnús Oddsson ferðamálastjóri hefur sótt allar Vestnorden kaupstefnunnar frá upphafi og getur því vel borið saman hvaða breytingar hafa orðið. Að hans sögn hefur yfirbragð Vestnorden breyst talsvert á undanförnum árum. "Gististaðir, flugfélög og önnur fyrirtæki sem flytja ferðamenn voru áberandi til að byrja með og eru vissulega enn. Að þessu sinni fannst mér hins vegar áberandi hve afþreyingarþáttur ferðaþjónustunnar á þessu Vestnorden svæði er orðinn fjölbreyttur og hve mikið er um að byggð hafi verið upp hvers konar afþreying tengd náttúrunni. Þetta endurspeglar líka þær breytingar sem hafa orðið í ferðamynstri fólks sem ferðast nú meira á eigin vegum og sækist í auknu mæli eftir að upplifa það land sem þeir heimsækja," segir Magnús.
Framkvæmdin til fyrirmyndar
Ársæll Harðarson, forstöðumaður markaðssviðs Ferðamálaráðs, segir framkvæmd kaupstefnunnar hafa tekist sérlega vel hjá Færeyingum út frá faglegu sjónarmiði. Öll praktísk atriði hafi verið vel af hendi leyst og til að mynda hafi hátíðarkvöldverðurinn verið einkar glæsilegur og vel heppnaður. Nú sé komið að Íslendingum að halda Vestnorden næsta haust og því hafi verið gagnlegt að fylgjast með framkvæmdinni hjá Færeyingum. "Stórt atriði í þessu sambandi er að nú gistu allir um borð í nýju Norrænu. Þetta leiddi til þess að engin vandamál sköpuðust með gistirými eins og því miður hefur verið raunin þau ár sem kaupstefnan hefur verið í Færeyjum og á Grænlandi. Þetta sýndi okkur svart á hvítu hvað tilkoma nýju ferjunnar er gríðarleg vítamínsprauta fyrir ferðaþjónustu Færeyinga og gerbreytir möguleikum þeirra til að standa fyrir viðburðum á borð við Vestnorden," segir Ársæll.
Hvar voru Bretar?
Ársæll segir ávalt nauðsynlegt að setjast niður að loknum viðburði sem þessum og meta árangurinn. Meginmálið sé hverju kaupstefnan skili ferðaþjónustunni. "Það vekur óneitanlega athygli þegar listinn yfir kaupendur er skoðaður hvað Bretar eru fáir miðað við þyngd þeirra á ferðamarkaði hérlendis. Þetta er mál sem þarf að skoða sérstaklega og finna skýringar á og það munum við gera. Hluti skýringarinnar kann að vera að kaupendur eru að jafnaði heldur færri þegar Vestnorden er haldin utan Íslands en það skýrir ekki allt. Einnig heyrðust raddir á meðal kaupenda um að tímasetningin væri ekki nógu hentug. Betra væri að vera fyrr á árinu og þá áður en aðal ferðamannatíminn hefst. Þetta er bæði gömul og ný umræða sem við verðum að taka afstöðu til með framtíðina í huga," segir Ársæll.