Laða að aukna fjárfestingu í ferðaþjónustu á Austurlandi
Ferðamálastofa hefur að undanförnu unnið með Austurbrú og Íslandsstofu að verkefninu Invest in Austurland sem miðar að því að laða að aukna fjárfestingu í ferðaþjónustu til landshlutans. Samstarfsverkefnið er liður í þróun og uppbyggingu Áfangastaðarins Austurlands með það að markmiði að lengja ferðamannatímabilið á Austurlandi sem og byggja undir eflingu þjónustu sem nýtist bæði gestum og heimamönnum.
Í liðinni viku bauð hópurinn fjárfestum og fjármögnuaraðilum til fundar í Vinnustofu Kjarvals í Austurstræti í Reykjavík þar sem verkefnið var kynnt og vefur þess opnaður. Staðsetningin í höfuðborginni valin í ljósi menningarlegrar tengingar Kjarvals við Austurland en mörg sumur kom hann austur og málaði margar af frægustu myndum sínum í Kjarvalshvammi skammt frá Ketilsstöðum í Hjaltastaðaþinghá. Fundurinn var vel sóttur og augljóst að áhugi er á frekari upplýsingum um fjárfestingatækifæri í ferðaþjónustu á Austurlandi.
Á fundinum voru m.a. erindi frá Skarphéðni Berg Steinarssyni, ferðamálastjóra; Jónu Árnýju Þórðardóttur, framkvæmdastjóra Austurbrúar; Jóni Birni Hákonarsyni, bæjarstjóra Fjarðabyggðar og Sigríði Dögg Guðmundsdóttur, fagstjóra ferðaþjónustu hjá Íslandsstofu. Auk þess voru áhugaverð innlegg frá ýmsum aðilum sem reynslu hafa af uppbyggingu á svæðinu eða sýnt hafa fjárfestingu á Austurlandi áhuga.
Nánar má fræðast um fundinn í frétt á vef Austurbrúar og verkefnið sjáklft má kynna sér á vefnum Invest in Austurland,