Fara í efni

Metfjöldi ferðamanna á liðnu ári

Laugardalslaug
Laugardalslaug

Metfjöldi erlendra ferðamanna sótti landið heim á liðnu ári. Alls komu 320 þúsund ferðamenn hingað til lands á árinu 2003, um 17 þúsund fleiri en árið 2000, sem á þeim tíma var metfjöldi.

Talningar í Leifsstöð ná til 96% ferðamanna
Frá árinu 1949 annaðist Útlendingaeftirlitið talningar á ferðamönnum sem komu erlendis frá en í árslok 2000 var þeim hætt vegna Schengen samkomulagsins. Engar talningar voru í gangi árið 2001 en áætlað er að um 295 þúsund gestir hafi komið það ár. Ferðamálaráð hóf brottfarartalningar í Leifsstöð í febrúar 2002 og hafa þær staðið yfir óslitið síðan. Samkvæmt þeim fóru 308.000 erlendir ferðamenn um völlinn á nýliðnu ári. Talið er að þessar talningar nái yfir 96% gesta sem koma til landsins og þegar bætt er við þeim gestum sem fara um aðra millilandaflugvelli en Keflavík og farþegum Norrænu er heildartalan 320.000 sem fyrr segir.

Athyglisverð samantekt
Fram til ársins 2000 fjölgaði ferðamönnum hingað til lands jafnt og þétt og það ár komu 302.900 erlendir gestir. Niðursveifla kom í kjölfar hryðjuverkaárásanna í Bandaríkjunum í september 2001 en á liðnu ári breyttust hlutir mjög til betri vegar. Oddný Þ. Óladóttir, verkefnastjóri hjá Ferðamálaráði hefur unnið samantekt um fjölda ferðamanna byggða á talningum Útlendingaeftirlitsins og Ferðamálaráðs í Leifsstöð á tímabilinu 1997-2004. Skoða má hver þróunin hefur verið í komum ferðamanna til landsins á tímabilinu, hlutfallslega samsetningu eftir löndum, auk þess sem greina má fjölda einstakra þjóðerna eftir mánuðum og árstíðum. Þessi samantekt er athyglisverð og gefur ágætis mynd af samsetningu ferðamanna síðustu ár. Til gamans er látin fylgja með framreikningur á fjölda ferðamanna til ársins 2015, miðað við þrjú, sex og níu prósent árlega aukningu að jafnaði.

Samantektin er sett fram í Excel-skjali. Opna Excel-skjal