Metfjöldi tjaldgesta á Akureyri
Gistinætur tjaldsvæðanna á Akureyri voru 31.000 nú í sumar, fleiri en nokkru sinni fyrr, samkvæmt upplýsingum af vef Akureyrarbæjar. Gistinætur á hinu nýja tjaldsvæði að Hömrum voru um 14.000, sem er rúmlega tvöföldun á milli ára. Á tjaldsvæðinu við Þórunnarstræti voru um 17.000 gistinætur, sem er svipað og undanfarin ár.
Hamrar hrein viðbót
Tjaldsvæðið að Hömrum var tekið í notkun sumarið 2000 og hefur gistinóttum þar fjölgað jafnt og þétt frá þeim tíma. Fyrsta árið voru gistinætur þar um 3000, árið 2001 um 4500 og um 6000 í fyrrasumar. Gistinætur á tjaldsvæðinu við Þórunnarstræti hafa verið á bilinu 16-18 þúsund undanfarin ár og því er um hreina fjölgun gistinátta að ræða með tilkomu tjaldsvæðisins að Hömrum. Þessa dagana er verið að loka tjaldsvæðinu við Þórunnarstræti en gestir eiga þess enn kost að gista að Hömrum, enda er aðstaða til að taka á móti fólki mun betri en við Þórunnarstræti, segir á vef Akureyrarbæjar. Segir að verið sé að kanna að taka á móti gestum þar lengur en venjulegt þykir og lengja þar með ferðamannatímabilið.