Náðu þér í stafrænt forskot
Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefur látið sig stafræn mál og stafræna fræðslu varða með margvíslegum hætti. Í þessum nýjasta þætti af Ferðalausnir - stafræn tækifæri fer Hulda Birna Baldursdóttir yfir þjónustu NMÍ á þessu sviði og kynnir sérstaklega vinnustofur um Stafrænt forskot sem haldnar verða um allt land næstu mánuði.
Fjölbreytt þjónusta
Þjónusta NMÍ við frumkvöðla og fyrirtæki er af ýmsum toga, líkt og Hulda birna fer yfir í fyrsta hluta myndbandsins. Hún getur t.d. snúið að því að bæta rekstur, endurmeta stöðuna og hjálpa til við markaðssetningu á samfélagsmiðlum, svo nokkuð sé nefnt. Þá rekur NMÍ frumkvöðlasetur á nokkrum stöðum á landinu og kemur að rekstri svokallaðra FabLab smiðja.
Gagnvirkt próf um stafræna stöðu
Meðal gagnlegra tóla sem Hulda birna bendir á er gagnvirkt próf á vef NMÍ sem fyrirtæki geta tekið til að meta stöðu sína í hinum stafræna heimi og fá í framhaldinu aðgang að safni vefrita sem hjálpar þeim að hagnýta vef, samfélagsmiðla og aðra stafræna tækni í markaðsmálum og rekstri.
Vinnustofur um stafrænt forskot
Í síðari hluta myndbandsins kynnir Hulda Birna síðan sérstaklega vinnustofur um stafrænt forskot sem nú eru að fara af stað og gefur smjörþefinn af hvað farið er yfir á námskeiðunum. „Verkefnið er unnið í samstarfi við landshlutasamtök og atvinnuþróunarfélög víðs vegar um land og miðar að því að að bjóða framúrskarandi efni til stuðnings fyrirtækjum sem vilja efla getu sína á sviði stafrænnar tækni,“ segir Hulda Birna. Með því að hagnýta Stafrænt forskot geta fyrirtæki meðal annars:
- mótað sér stafræna stefnu
- skipulagt vefvinnu og vefuppsetningu fyrirtækisins
- skipulagt og byrjað notkun á samfélagsmiðlum
- tekið næstu skref í notkun samfélagsmiðla
Horfa má á myndbandið hér að neðan: