Niðurstaða vegna Gamanferða í seinni hluta september
Vinna við yfirferð þeirra rúmlega 1.000 krafna sem bárust í kjölfar rekstrarstöðvunar Gaman ehf. (Gamanferða) sækist vel. Vonir standa til að um eða eftir miðjan september verði yfirferð lokið og fá þá allir senda tilkynningu með niðurstöðunni. Í kjölfarið tekur við fjögurra vikna kærufrestur áður en hægt verður að greiða út kröfur.
Að sögn Helenu Þ. Karlsdóttur, forstöðumanns stjórnsýslu- og umhverfissviðs Ferðamálastofu, hefur ekkert óvænt komið upp í vinnunni en nokkuð hefur tafið fyrir að í gögn eru ekki alltaf fullnægjandi og tímafrekt að kalla eftir viðbótargögnum. Þá er eitthvað um að sami aðili hafi sent inn fleiri en eina kröfu vegna sömu ferðar, sem einnig tefur úrvinnsluna. Hún segir starfsfólk Ferðamálastofu þakklátt fyrir biðlundina sem fólk hefur sýnt og skilning á þeim tíma sem ferli sem þetta tekur.