Niðurstöður úr ferðavenjukönnun sumargesta
Niðurstöður úr könnun meðal erlendra ferðamanna sem heimsóttu landið í sumar liggja nú fyrir. Um er að ræða framhald könnunar sem Maskína sá um að framkvæma fyrir Ferðamálastofu síðastliðinn vetur en niðurstöður úr þeirri könnun voru birtar í september síðastliðnum á vef Ferðamálastofu. Síðasta könnun Ferðamálastofu á meðal sumargesta var gerð árið 2011.
Um könnunina
Með könnuninni var aflað upplýsinga um erlenda ferðamenn á Íslandi, aðdragandann að Íslandsferðinni, ferðahegðun þeirra á Íslandi, eyðsluhætti og viðhorf þeirra til ýmissa þátta íslenskrar ferðaþjónustu. Um var að ræða netkönnun á tímabilinu júlí til október 2014 þar sem netföngum var safnað með skipulögðum hætti á komu- og brottfararsvæði flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og á Seyðisfirði meðal ferðamanna sem ferðuðust með Norrænu. Úrtakið var 4.586 manns og var svarhlutfallið 57,3%.
Ferðin stóðst væntingar
Ferðamenn voru líkt og áður einkar sáttir við ferð sína til landsins. Íslandsferðin stóðst þannig væntingar 95,6% svarenda, sem er nánast sama hlutfall og kom fram í síðustu vetrarkönnun og einnig í síðustu sumarkönnun en þá var hlutfallið 96%. Rúmlega 83% svarenda töldu líklegt að þeir myndu ferðast aftur til Íslands.
Tilgangur, dvalarlengd og tegund gistingar
Langflestir voru hér í fríi (86,9%) og var dvalarlengdin að jafnaði um 10 nætur, samanborið við 10,2 nætur í síðustu sumarkönnun. Flestir, eða nærri helmingur ferðamanna, gisti hins vegar á bilinu 3-7 nætur. Áhugavert er að sjá að hver ferðamaður er að gista að jafnaði álíka margar nætur og fyrir þremur árum þannig að mikil fjölgun ferðamanna hefur ekki haft áhrif í þá átt að fleiri séu að koma til styttri dvalar.
Af svörum um dvalarlengd innan einstakra landshluta má ætla að tæpum helmingi gistinótta hafa verið eytt á höfuðborgarsvæðinu og Reykjanesi (47,4%),
16,3% á Suðurlandi, 14,1% á Norðurlandi, 9,9% á Vesturlandi og Vestfjörðum,
7,6% á Austurlandi og 4,6% á hálendinu.
Þegar gistinætur eru síðan
skoðaðar eftir tegund gistingar má sjá að flestum gistinóttum var eytt á hótelum og gistiheimilum (35,3%) og tjaldsvæðum (24,9%). Þar á eftir kom gisting í húsnæði í einkaeigu (10%), á farfuglaheimilum eða skálum, hjá vinum og ættingjum (8%) og í annarri gistingu (13,4%).
Nánari hlutfallslega skiptingu gistinótta má sjá á myndritunum hér til hliðar.
Langflestir á eigin vegum
Þegar spurt er hvort hafi verið ferðast á eigin vegum, í pakkaferð eða vegna atvinnu, kemur í ljós að hlutfall þeirra sem ferðast á eigin vegum hefur aldrei verið hærra, eða 84,3%. Af þeim bóka þrír af hverjum fjórum ferð sína beint hjá flugfélagi eða á netinu af öðrum vefsíðum en flugfélaga.
Hvaðan kom hugmyndin?
Áhugaverð þróun virðist vera að eiga sér stað varðandi það hvar hugmynd að Íslandsferð kviknaði. Flestir nefna sem fyrr almennan áhuga á landi og náttúru en þetta hlutfall hefur hins vegar lækkað jafnt og þétt í síðustu könnunum, úr 61,7% sumarið 2011 í 44,7% nú. Að sama skapi hækkar hlutfall þeirra sem nefna vini og ættingja og Internetið. Í síðustu vetrarkönnun var bætt við svarmöguleikanum alþjóðlegt myndrænt efni, þ.e. kvikmyndir, heimildamyndir, sjónvarpsþættir eða tónlistarmyndbönd sem sýna íslenska náttúru. Þá nefndu 9,7% þennan möguleika og hlutfallið hækkar í 13,9% meðal sumargesta, eða litlu færri en nefna Internetið.
Máttur orðsporsins
Hlutur Internetsins og vina og ættingja sem helsta uppspretta upplýsinga áður en ferð var farin, hækkar einnig talsvert. Þessi þróun gæti bent til vaxandi áhrifa samfélagsmiðla á ferðahegðun fólks og mikilvægi þess að viðhalda góðu orðspori áfangastaðarins.
En hvað í náttúrunni?
Íslensk náttúra trónir sem fyrr kyrfilega á toppnum þegar er spurt er um þætti sem höfðu mikil áhrif á ákvörðun um Íslandsferð en um 80% nefndu þann valkost. Þeir voru jafnframt spurðir í opinni spurningu hvað það væri varðandi náttúruna sem heillaði. Spurning af þessu tagi hefur ekki verið áður í könnun Ferðamálastofu en hér má sjá það sem oftast var nefnt (niðurstöður úr vetrarkönnun til samanburðar):
Næst á listanum komu fossar (8,7%), dýra- og náttúrulíf (6,8%) og jarðfræðisaga/jarðfræði/jarðeðlisfræði (6%)
Ferðaþjónustan almennt með góða einkunn
Í könnuninni eru svarendur beðnir að meta rúmlega 20 þætti í íslenskri ferðaþjónustu og gefa þeim einkunn á bilinu 0-10. Hæstu meðaleinkunnina fá þættirnir fjölbreytni í náttúrutengdri afþreyingu (8,83) og almennt ástand á ferðamannastöðum (8,67). Aðeins fjórir þættir fara undir 8 í meðaleinkunn: hreinlætisaðstaða á ferðamannastöðum (7,89), aðstaða á gististað (7,85%), "fjölbreytni í menningartengdri afþreyingu" (7,69) og "Úrval veitingastaða" (7,54).
Náttúran minnisstæðust
Þegar svarendur voru spurðir að því hvað þrennt þeim hefði þótt minnisstæðast við Íslandsferðina nefndu flestir Náttúru eða landslag (27,4%), fólkið/gestrisni (16,4%), Bláa lónið (15,3%) og Reykjavík 14,1%. Miðað við síðustu sumarkönnun þá nefna nokkru fleiri fólkið/gestrisni en færri nefna Bláa lónið.
Styrkleikar og veikleikar
Ferðamenn töldu líkt og áður að styrkleikar ferðaþjónustu lægju fyrst og fremst í náttúrunni og landslaginu en 62,7% nefndi þessa þætti. Næst kom fólkið og gestrisni lands og þjóðar en 26,5% nefndu þann valmöguleika. Þar á eftir kom afþreying og það hversu margt væri hér að gera og sjá (14,8%), söfn og sýningar (8,9%) og svo þjónusta og gæði (7,7%).
Helst töldu ferðamenn úrbóta þörf varðandi þjónustu og úrval á mat og veitingastöðum en 10% af þeim sem svöruðu spurningunni nefndu þann þátt. Ástand vega nefndu 9,3%, valmöguleika í afþreyingu 7,3% og aðgengi að upplýsingum 7%.
Gæðavitund að vaxa
Hærra hlutfall ferðamanna nefnir nú en áður að það skipti máli við val þess á ferðaþjónustu- fyrirtæki að það sé með viðurkennda gæðavottun, eða 65,1% en var 56,2% í síðustu sumarkönnun. Virðist því sem gæðavitund ferðamanna sé að vaxa. Færri sumargestir en vetrargestir telja þetta hins vegar skipta máli.
Útgjöld ferðamanna
Ferðamenn greiddu að jafnaði um 101 þús. fyrir gistingu í Íslandsferðinni. Fyrir bílaleigubíla var greitt að jafnaði um 92 þús. , fyrir mat og drykki á veitingastöðum um 50 þús. og fyrir afþreyingu að jafnaði 42 þús. Þeir sem versluðu eyddu að jafnaði tæpum 34. þús. Í könnuninni var ennfremur spurt um eyðslu í matvöru- og áfengisverslunum, almenningssamgöngur og annan kostnað í tengslum við samgöngur.
Nánari niðurstöður
Niðurstöður úr könnuninni má nálgast í skýrslunni hér að neðan. Heildarniðurstöður eru settar fram í gröfum þar sem sjá má samanburð milli svara vetrargesta 2013-2014 og sumargesta 2011 og vetrargesta 2011-2012 þar sem slíkt á við. Einstaka spurningar eru síðan greindar fyrir svör gesta eftir kyni, aldri, starfi, heimilistekjum, þjóðerni, markaðssvæðum, tilgangi ferðar og tegund ferðar þ.e. hvort um var að ræða ferð á eigin vegum eða pakkaferð.
Íslensk útgáfa:
Könnun meðal erlendra ferðamanna á Íslandi sumarið 2014
Ensk útgáfa:
Könnun meðal erlendra ferðamanna á Íslandi sumarið 2014