Ný áætlun um að efla samstarf á sviði ferðaþjónustu á Norðurlöndum
Norrænu atvinnumálaráðherrarnir samþykktu nýja samstarfsáætlun á sviði ferðaþjónustu á fundi sínum í Reykjavík í gær. Áhersla er meðal annars lögð á samstarf um stafræna væðingu og nýsköpun til að efla samkeppnishæfni í geiranum, öfluga kynningu á Norðurlöndum á fjarlægum mörkuðum og aukið samstarf til að skapa góð rammaskilyrði fyrir sjálfbæra ferðaþjónustu. Gildistímabil samstarfsáætlunarinnar er 2019–2023.
Ört vaxandi atvinnugrein
Aðdragandi hinnar nýju áætlunar er að ferðaþjónusta er ört vaxandi atvinnugrein á Norðurlöndum. Vægi hennar fyrir hagkerfi og atvinnustig landanna verður stöðugt meira. Þessu fylgja einnig fjölmargar áskoranir, ekki síst fyrir umhverfið. Það hefur orðið til þess að samstarf á sviði ferðaþjónustu er nú forgangsmál á dagskrá norrænu atvinnumálaráðherranna.
Í nýju samstarfsáætluninni er m.a. lagt til að:
- Auka áherslu á stafræna væðingu og þróun svonefndra snjallra áfangastaða með nýskapandi lausnum
- Auka skilvirkni í samstarfi um tölfræði og greiningar
- Gera úttekt á reglum norrænu landanna með það fyrir augum að greina þau svið sem þróa má frekar.
Áhersla er m.a. lögð á:
- Mikilvægi aukins samráðs milli áhrifafólks í samfélögum og aðila ferðaþjónustunnar.
- Aukið samstarf geti haft samlegðaráhrif á sviði sjálfbærni.
- Norrænir ráðherrar eru hvattir til að efna til forgangsverkefna í samstarfi um sjálfbæra ferðaþjónustu. M.a. að samin verði áætlun um sjálfbæra ferðaþjónustu þar sem skilgreind verði markmið og aðgerðir á völdum sviðum.
- Að miklir möguleikar felist í samræmdri markaðssetningu á fjarlægum mörkuðum, svo sem í Kína, þar sem margir líta á Norðurlönd sem eina heild fremur en aðskilin lönd.
Í vinnuhópi sem vann að áætluninni sátu fyrir Íslands hönd Elías Bj. Gíslason, forstöðumaður hjá Ferðamálastofu, og Berglind Hallgrímsdóttir, forstöðumaður hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Vinnuhópi verður nú komið á fót og honum falið að fylgjast með innleiðingu áætlunarinnar á sviði ferðaþjónustu og samhæfa norrænar aðgerðir sem stuðla að svipuðum markmiðum.
Áætlunin í heild