Ný innanlandskönnun- Siglufjörður kemur sterkur inn
Nú liggja fyrir niðurstöður úr könnun sem Ferðamálastofa lét MMR gera í síðasta mánuði þar sem spurt var um ferðalög Íslendinga á árinu 2011 og ferðaáform þeirra í ár. Niðurstöður benda til að álíka margir hafi verið á faraldsfæti innanlands og áður en breytingu má sjá á heimsóknum til einstakra staða. Þá halda utanferðir áfram að færast í aukana.
Níu af hverjum tíu ferðuðust innanlands
Tæplega níu af hverjum tíu Íslendingum ferðuðust innanlands í fyrra,
sem er svipað og árin á undan. Tæplega tveir þriðju aðspurðra ferðuðust til útlanda á árinu 2011, eða 63,3%, en var 56,3%
í sambærilegri könnun fyrir ári síðan. Ekki er að greina miklar breytingar í ferðaáformum fólks fyrir nýbyrjað ár en
langflestir hafa ferðalög af einhverju tagi á stefnuskránni.
Hvenær var ferðast innanlands...
Júlí var sem fyrr langvinsælasti mánuðurinn til ferðalaga innanlands en 72,0% landsmanna
nýttu þann mánuð til ferðalaga. Fast á eftir fylgja ferðalög landsmanna í ágústmánuði (63,2%) og júní
(52,4%). Á vor- og haustmánuðum, þ.e. í apríl, maí, september og október, ferðaðist um fimmtungur í hverjum mánuði en mun
minna var ferðast aðra mánuði ársins.
...og hversu lengi var dvalið?
Meðaldvalarlengd á ferðalögum innanlands var 14,0 nætur árið 2011. Um er að ræða ívið styttri dvalarlengd og árið 2010 en
þá var hún 14,9 nætur. Stærsti hópurinn dvaldi í tvær vikur, eða einn af hverjum fjórum. Litlu færri dvöldu í 7-10
nætur en tæp 18% dvöldu í 4-6 nætur og svipað hlutfall í þrjár vikur eða lengur.
Dregur úr ferðum með tjald og ferðavagna
Tjald, fellihýsi eða húsbíll var algengasti gistimátinn, eða í
44,6% tilvika. Þó dregur nokkuð hlutfallslega úr slíkri gistingu þar sem 52,2% nefndu þennan kost fyrir tveimur árum. Gisting hjá vinum og
ættingjum er sem fyrr vinsæl, en tæp 44% nefna þann kost nú. Þá kemur orlofshús eða íbúð í eigu félagasamtaka
með 38,6% og sumarhús eða íbúð í einkaeign (37,5%).
Hvaða afþreyingu greiða landsmenn fyrir?
Sund og jarðböð eru sú afþreying sem flestir landsmenn greiddu fyrir á ferðalögum árið 2011 eða tveir landsmenn af hverjum þremur.
Margir (36,3%) borguðu sig inn á söfn eða sýningar, leikhús eða tónleika (17,8%), fyrir veiði (17,7%), golf (12,7%) eða bátsferð
(10,2%).
Hvaða landsvæði eru heimsótt?
Norðurland og Suðurland voru líkt og í undanförnum könnunum þeir landshlutar sem flestir
landsmenn heimsóttu á árinu 2011 eða tæplega þrír af hverjum fimm. Þó nefna heldur færri Norðurland en í síðustu
könnun og sama má segja um Austurland en þangað ferðaðist einn af hverjum fimm í fyrra í stað eins af hverjum fjórum 2010. Fleiri nefna
Höfuðborgarsvæðið en í síðustu könnun.
Siglufjörður kemur sterkur inn
Þegar spurt var um hvaða staði fólk heimsótti í fyrra má sjá að
Siglufjörður tekur mikið stökk upp á við. Hlutfallið fer úr 8% árið 2010 í 17,7% 2011. Þá nefna einnig talsvert fleiri
Skagafjörð (22,1) en í síðustu könnun. Á landsvísu er Skagafjörður í fjórða sæti og Siglufjörður í
því fimmta yfir þá staði sem flestir heimsóttu í fyrra. Flestir nefna sem fyrr Akureyri (41,8%), þá koma Þingvellir/Geysir/Gullfoss
(27,8) og Akranes/Borgarnes (22,6%).
Staðir innan einstakra landshluta
Af þeim stöðum eða svæðum sem spurt var um innan Suðurlandsins heimsóttu flestir
Þingvelli/Geysi eða Gullfoss (27,8%), Vestmannaeyjar (12,1%) og Vík (12,1%), innan Norðurlandsins heimsóttu flestir Akureyri (41,8%), Skagafjörð (22,1%) og
Siglufjörð (17,7%) og innan Vesturlandsins Akranes/Borgarnes (22,6%), Húsafell/Reykholt (13,5%) og Stykkishólm (13,4%).
Þeir sem heimsóttu Austurlandið heimsóttu flestir Egilsstaði/Hallormsstað (14,5%) og Fjarðabyggð (9,4%) af þeim stöðum og svæðum sem spurt var um, þeir sem heimsóttu Vestfirðina lögðu flestir leið sína á Ísafjörð (14,0%) og inn á Hólmavík eða Strandir (8,9%) og þeir sem heimsóttu Reykjanesið, Reykjanesbæ (7,6%) og Grindavík (4,1%). Af þeim sem fóru inn á Hálendið heimsóttu m.a. 5,0% Landmannalaugar og 3,8% Kjöl þ.m.t. Hveravelli.
Dagsferðir vinsælar
Þrír af hverjum fjórum svarendum höfðu farið í dagsferð á árinu 2011 en dagsferð
var skilgreind sem skemmtiferð, fimm klukkkustunda löng eða lengri út fyrir heimabyggð svarenda án þess að gist væri yfir nótt. Ríflega
helmingur hafði farið í dagsferð á Suðurlandið, tæplega tveir af hverjum fimm á Vesturlandið, ríflega fjórðungur á
Reykjanesið, fjórðungur á Norðurlandið, ríflega fimmtungur á höfuðborgarsvæðið, um einn af hverjum tíu á
Austurlandið og tæplega einn af hverjum tíu á Vestfirði.
Takmörkuð gæðavitund hjá Íslendingum á ferð um eigið land
Nú fer að líða að því að
tekið verið í notkun nýtt gæðakerfi sem Ferðamálastofa hefur þróað að erlendri fyrirmynd og hefur hlotið nafnið VAKINN.
Það þótti því tilvalið að varpa þeirri spurningu til svarenda í þessari könnun hvort það hefði áhrif á
á val á ferðaþjónustufyrirtæki þegar ferðast væri innanlands að það hefði fengið viðurkennd
gæðaviðmið. Ríflega fjórðungur svarenda sagði að það hefði mjög mikil eða frekar mikil áhrif á val á
ferðaþjónustufyrirtæki, þriðjungur var hlutlaus en tveir af hverjum fjórum sögðu að það hefði frekar lítil eða mjög
lítil áhrif.
Ferðaáform landans
Níu af hverjum tíu svarendum hafa áform um ferðalög á árinu 2012. Þannig segjast 56,5%
ætla að fara í sumarbústaðaferð innanlands, 50,4% að heimsækja vini eða ættingja, 34,2% borgarferð erlendis, 31,5% í ferð innanlands
með vinahópi eða klúbbfélögum, 27,9% borgar- eða bæjarferð innanlands og 25,3% útivistarferð innanlands þ.m.t. gönguferðir,
jeppa- eða snjósleðaferðir. 23,8% ætla að elta veðrið þ.e. ferðast þangað sem veðrið er best á Íslandi, 22,5% ætla
í sólarlandsferð og 20,7% í annars konar ferð erlendis en hér er upptalið. Annars konar ferðir voru nefndar í mun færri tilfellum.
Um könnunina
Könnunin var unnin sem net- og símakönnun 12.-17. janúar. Spurningar fyrir aldurshópinn 18-67 ára voru lagðar
fyrir í spurningavagni MMR og var svarað á Internetinu. Könnunin náði til 1400 manna panel úrtaks, kvótaskiptu til samræmis við
lýðfræðilega samsetningu þjóðskrár og var svarhlutfall 60,1%. Aldurshópurinn 68-80 ára var spurður símleiðis, byggt var
á 210 manna úrtaki og var svarhlutfall 54,8%. Framkvæmd og úrvinnsla voru í höndum MMR.
Könnunin í heild:
Myndir:
Mynd frá Siglufirði af nordurland.is. Aðrar myndir Ragnar Th. Sigurðsson, arctic-images.com