Ný könnun um hlutfall sjálftengifarþega og erlendra ríkisborgara
Á morgunfundi Isavia í gær voru birtar niðurstöður nýrra úrtakskannana meðal farþega Keflavíkurflugvallar fyrir þriðja og fjórða ársfjórðung nýliðins árs. Tilgangurinn er að meta vægi sjálftengifarþega og erlends vinnuafls í brottfarartalningum. Niðurstöður eru áþekkar og fyrir sömu tímabil 2017 og gefa til kynna að hlutfall sjálftengifarþega sé hærra yfir sumarmánuðina en önnur tímabil.
8,4% millilentu eingöngu
Niðurstöður könnunar má sjá á myndinni hér til hliðar en spurt var: Hvað af eftirfarandi lýsir best dvöl þinni á Íslandi/Keflavíkurflugvelli? (Which of the following best describes your stay in Iceland/Keflavik Airport?). Tölurnar sýna að 8,4% brottfararfarþega notuðu flugvöllinn eingöngu til millilendingar síðastliðið sumar, þ.e. farþegar sem tengja sjálfir á milli tveggja flugfélaga (e. self-connect). Að auki millilentu 3,9% farþega en nýttu tækifærið til að fara út af flugvellinum og skoða sig um, án þess að gista. Hlutfall erlendra ríkisborgara sem búa á Íslandi til skemmri eða lengri tíma er á bilinu 1,5-2% í þessum nýjustu könnunum.
Áhrif á brottfarartölur
Ef niðurstöður könnunar Isavia á þriðja ársfjórðungi eru yfirfærðar á brottfarartalningarnar fyrir sumarmánuðina júní-ágúst má gróflega gera ráð fyrir að um 84 þúsund (10,4%) af tæplega 804 þúsund brottfararfarþegum síðasta sumars hafi verið sjálftengifarþegar eða erlendir ríkisborgarar búsettir hérlendis til skemmri eða lengri tíma. Að sama skapi hafi um 82 þúsund (5,4%) af rúmlega 1,5 milljón brottfararfarþegum aðra mánuði ársins til samans fallið í þessa hópa.
Vert er að ítreka að bróðurpartur skiptifarþega sem fer um Keflavíkurflugvöll er alfarið fyrir utan þessar tölur, þ.e. þeir farþegar sem þegar eru skráðir sem skiptifarþegar og þurfa því ekki að fara út fyrir flugverndarsvæðið.
Nota fleiri mælikvarða saman
Kannanirnar gagnast þeim sem vinna með talningarnar til að greina markaðsþróun og ferðahegðun erlendra gesta á Íslandi enn frekar. Sem fyrr er rétt að minna á að fyllsta myndin af stöðu íslenskrar ferðaþjónustu fæst með því að samkeyra öll tiltæk gagnasöfn.