Ný skýrsla um ferðaáform frá fjærmörkuðum
Ferðamálaráð Evrópu, ETC, heldur stöðugt úti könnunum til að fylgjast með ferðavilja frá færmörkuðum (Long-Haul Travel Barometer). Nýjasta skýrslan var birt í gær og í henni er farið yfir þau ferðaplön sem fólk utan Evrópu hefur síðustu 4 mánuði ársins, þ.e. september-desember 2024.
Í heildina virðist heldur færri áforma ferðalög á þessu árstíma en í fyrra, eða 58% svarenda. Af þeim stefna 40% til Evrópu, sem er 4% samdráttur. Hins vegar segja tölurnar mun meira ef þær eru brotnar niður á einstök lönd.
Minni ferðaáform Bandaríkjamanna
Af þeim löndum sem könnunin tekur til eru þrjú meðal mikilvægustu markaða Íslands, þ.e. Bandaríkin, Kanada og Kína. Jákvæðu fréttirnar er nokkur aukning í ferðaáformum Kínverja og Kanadabúar eru nánast á pari við fyrra ár. Umhugsunarefni fyrir Ísland eru hins vegar umtalsvert minni ferðaáform Bandaríkjamanna, okkar stærsta markaðar. Þannig segjast 23% aðspurðra að hyggja á ferðalög til Evrópu það sem eftir er ársins en hlutfallið var 41% fyrir sama tímabil í fyrra.
Kostnaðurinn helsta hindrunin
Helsta hindrunin sem Bandaríkjamenn nefna er hár ferðakostnaður. Raunar er verðlagið er það sem flestir í könnuninni almennt segja standa í veginum fyrir Evrópureisu. Öryggi, sögufrægir staðir og góðir innviðir er hins vegar það sem helst ræður vali fólks á áfangastað.
5% nefna Ísland
Þegar spurt var um áfangastað innan Evrópu nefndu langflestir Frakkland, eða 37%. Þar á eftir kom Ítalía með 29% og síðan Þýskaland, Bretland og Spánn með um og yfir20% hvert land. Ísland var nefnt af 5% svarenda.
Könnunin í heild
Ýmsar aðrar áhugaverðar niðurstöður má kynna sér í skýrslunni. Svo sem um viðhorf til umhverfismála, áformuð útgjöld og margt fleira sem lýtur að ferðaskipulagningu fólks. Skýrslu með heildarniðurstöðum má nálgast hér að neðan.