Ný spá Ferðamálastofu um fjölda erlendra ferðamanna 2025 – 2027
Ný áramótaspá Ferðamálastofu er með megináherslu á næstu þrjú ár, 2025-2027. Einnig birtum við spágildi fyrir árin 2028-2030 til upplýsingar en leggjum áherslu á að óvissa eykst mjög hratt með hverju ári sem horft er fram í tímann. Nýja spáin er sýnd í töflunum að neðan í þúsundum ferðamanna, ásamt síðustu spá til samanburðar fyrir árin 2024-2026, en hún var birt um mitt síðasta ár.
Talsverðar sveiflur 2024 en fjölgun frá 2023
Erlendir ferðamenn til landsins um Keflavíkurflugvöll árið 2024, eins og Ferðamálastofa mat fjöldann, reyndust rúmlega 2.261 þúsund og 2,2% fleiri en árið áður. Fyrsti ársfjórðungur var erfiður í greininni; náttúruhamfarir á Reykjanesi og neikvæð erlend fréttaumfjöllun um þær ollu miklum afbókunum og óvissu um framhaldið. Engu að síður taldist Ferðamálastofu til að erlendir ferðamenn um Keflavíkurflugvöll hefðu verið 9% fleiri á 1. fjórðungi en á sama tíma 2023. Niðursveiflan kom fram á 2. fjórðungi, en allir mánuðir fjórðungsins sýndu samdrátt á milli ára og mældist hann 4,8% fyrir fjórðunginn í heild. Á 3. fjórðungi var komið á ákveðið jafnvægi aftur. Töldust ferðamenn tæplega 1% fleiri en á sama tíma 2023 en fjórðungurinn inniheldur stærstu ferðamánuði ársins, júlí og ágúst. Allan lokafjórðung 2024 varð h.v. aftur umtalsverð fjölgun á milli ára, ríflega 6%, sem skilaði fjölgun erlendra ferðamanna 2024 miðað við fyrra ár.
Nokkrir lykilþættir í horfum ferðaþjónustu
Ákveðin teikn eru á lofti um að draga muni eitthvað úr fjölda flugferða til og frá landinu á þessu ári, miðað við í fyrra. Bæði hafa sum erlend flugfélög breytt fyrri áætlunum um flug til landsins og Play hefur tilkynnt um verulega breytingu á viðskiptalíkani félagsins, sem m.a. felur í sér samdrátt á flugi til og frá Íslandi. Á móti gæti hugsanlega nýtingarhlutfall sæta í ferðum hækkað. Intellecon, sem er spágerðaraðili fyrir hönd Ferðamálastofu, hefur í þessari nýju spá ekki gengið svo langt að spá samdrætti í ár, heldur spáir um það bil sama fjölda og í fyrra.
Á næsta ári og árin á eftir gerir spáaðili ráð fyrir því að jafnvægi hafi komist á í flugi til og frá landinu, í samræmi við eftirspurn, og að fjöldi erlendra ferðamanna til landsins stýrist fyrst og fremst af áætluðum hagvexti í OECD löndunum, sem innihalda mikilvægustu upprunamarkaði íslenskrar ferðaþjónustu. Það skýrir nokkuð mikinn áætlaðan vöxt á árinu 2026, eða um 7%. Árin þar á eftir er spáð mun hóflegri fjölgun erlendra ferðamanna, u.þ.b. 3-4% hvert ár.
Nánari upplýsingar veita:
- Arnar Már Ólafsson, arnar@ferdamalastofa.is
- Jóhann Viðar Ívarsson, johann@ferdamalastofa.is