Ný vefsjá fyrir kortagögn Ferðamálastofu
Ferðamálastofa heldur utan um ýmsar staðtengdar upplýsingar sem ætlað er að styðja við skipulagningu, stefnumótun og vöruþróun í ferðamálum. Gögnin er hægt að skoða saman á vefsjá og hefur nú verið opnuð ný útgáfa af henni með aðgengilegra viðmóti.
Hvaða gögn eru þetta?
Af kortagögnum Ferðamálastofu má fyrst nefna gögn sem söfnuðust í verkefninu „Kortlagning auðlinda íslenskrar ferðaþjónustu“ þar sem með aðstoð heimafólks var metið mögulegt aðdráttarafl og fleiri þættir á áhugaverðum viðkomustöðum á þeirra svæði. Aukaafurð þess verkefnis var síðan gagnasafn um þá staði sem nefndir eru í Íslendingasögunum.
Þá má nefna safn sem sýnir upptökustaði þekktra erlendra kvikmynda og þátta hérlendis og þjónustugrunnur Ferðamálastofu með upplýsingum um ferðaþjónustuaðila um allt land. Loks eru það úthlutanir Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða frá upphafi sem birtar eru i sér vefsjá.
Grunnkort úr opnum gögnum
Kortagrunnur vefsjárinnar byggir á grunnkorti sem ráðgjafafyrirtækið Alta hefur þróað með því að setja saman opin gögn úr ýmsum áttum. Landhæðarlíkan, sem gefur hliðarskyggingu, hæðarlínur, vegakerfi og örnefni eru er frá Landmælingum Íslands, litaþekja eftir gróðurfari byggir á vistgerðagögnum Náttúrufræðistofnunar Íslands og mannvirki eru úr gagnasafni Open Street Map. Mörk sveitarfélaga eru einnig sýnd.
Atlaskort og uppfærð loftmynd
Notendur vefsjárinnar geta að auki valið um þrjú önnur grunnkort til að hafa undir gögnunum.
- Loftmynd frá Bing/Microsoft sem endurbætt hefur verið með því að setja yfir hana vegi, hæðarlínur og helstu örnefni, þ.m.t. nöfn sveitabæja.
- Götukort frá Open Street Map, sem hentar t.d. vel þegar verið er að skoða þorp og bæi.
- Gömlu Atlas-kort Landmælinga Íslands, sem gefa skemmtilegt sjónarhorn.
Aðgangur og niðurhal
Auk vefsjá er er einnig er boðið upp á aðgang og niðurhal. Þeir sem nota landupplýsingakerfi geta tengst fitjuþjónustu gagnaveitunnar beint. Þeir sem vilja sækja gögnin án þess að nota landupplýsingakerfi geta valið gagnasett, gagnasnið og hnitakerfi og halað þeim síðan niður.