Nýtt met í fjölda ferðamanna líklegt á þessu ári
Spá um talsverðan vöxt ferðaþjónustunnar árin 2024-2026
Ráðgjafarfyrirtækið Intellecon kynnti fyrir hönd Ferðamálastofu í gær uppfærslu á spám sínum um meginstærðir í ferðaþjónustu á næstu árum. Megináherslan er á árlegar spár til næstu þriggja ára, til 2026.
Mánaðarlegar tölur út þetta ár
Einnig er spáð fyrir um mánaðarlegar tölur út þetta ár og sýndur framreikningur á árlegum gildum fyrir árabilið 2027-2030, sem þó er mikilli óvissu háður. Tölurnar sem spáð er um eru fjöldi erlendra ferðamanna um Keflavík og með Norrænu, kortavelta erlendra ferðamanna innanlands, meðaldvalartími og heildarfjöldi gistinátta þeirra.
Yfir 2,7 milljónir 2026
Samkvæmt spánum verða erlendir ferðamann á þessu ári fleiri en nokkru sinni fyrr, ríflega 2,4 milljónir. Metárið 2018 voru þeir ríflega 2,3 milljónir. Á árinu 2025 er gert ráð fyrir komu um 2,6 milljóna ferðamanna. Árið 2026 verði þeir svo orðnir yfir 2,7 milljónir. Farþegar með skemmtiferðaskipum eru ekki inni í þessum fjöldatölum. Þeir voru ríflega 300 þúsund talsins í fyrra og líkur er á svipuðum fjölda í ár.
Óvissari langtímaspá
Í talsvert óvissari langtímaspá eða framreikningi út þennan áratug er gert ráð fyrir að að erlendir ferðamenn hér á landi geti verið orðnir um 3,2 milljónir árið 2030, sem væri um 40% fjölgun frá metárinu 2018.
Einnig spá um kortaveltu, meðaldvalartíma og heildarfjölda gistinátta
Um kortaveltu erlendra ferðamanna, meðaldvalartíma og heildarfjölda gistinátta er vísað til lokaskýrslu og kynningar Intellecon fyrir Ferðamálastofu sem finna má undir tenglum með þessari frétt.
Hafi ráðrúm til að marka sér stefnu
Mikilvægi spáa sem þessara felst ekki síst í því að vekja athygli á líklegri þróun mála á næstu misserum og árum, þannig að aðilar í greininni, stjórnvöld og aðrir hagsmunaaðilar hafi ráðrúm til að marka sér stefnu um hvernig menn vilja haga málum og bregðast tímanlega við, m.a. í stýringu, fjárfestingum og uppbyggingu nauðsynlegra innviða og þjónustu.
Gögn og nánari upplýsingar
- Upptaka af fyrirlestri Intellecon um spárnar
- Glærur úr fyrirlestri
- Formleg lokaskýrsla Intellecon um verkefnið
Nánari upplýsingar veitir: Jóhann Viðar Ívarsson, johann@ferdamalastofa.is
Mynd með frétt: Nicolas J Leclercq á Unsplash