Fara í efni

Nýtt vefsvæði fyrir áfangastaðaáætlun Norðurlands

Nýtt vefsvæði fyrir áfangastaðaáætlun Norðurlands

Markaðsstofa Norðurlands hefur nú í fyrsta sinn gefið áfangastaðaáætlun Norðurlands út sérstöku vefsvæði, sem unnið hefur verið í samstarfi við Ferðamálastofu og Markaðsstofur landshlutanna. Hingað til hafa áfangastaðaáætlanir verið gefnar út í PDF skjölum en þessi nýja birtingarmynd er mun aðgengilegri og mun auðvelda frekari uppfærslur.

 

Hægt að sjá stöðu uppbyggingarverkefna

Ný áætlun var gefin út í nóvember á liðnu ári og hefur hún nú verið sett inn í heild á nýja vefsvæðið. Það á við um stefnuáherslur, tölfræði, stöðugreiningu og lýsingu helstu þróunar- og uppbyggingarverkefna. Tölfræði um stöðu ferðaþjónustu á Norðurlandi er nú sett fram á gagnvirkum myndritum og einnig er sú nýjung á vefsvæðinu að hægt er að sjá stöðu hvers og eins uppbyggingarverkefnis. Þannig eru þau merkt græn ef þau eru á framkvæmdastigi, gul ef þau eru í undirbúningi og grá þegar þeim hefur verið lokið. Þessa dagana er verið að afla nýjustu upplýsinga frá sveitarfélögum á Norðurlandi um stöðu uppbyggingarverkefna, svo efni vefsins gefi sem gleggsta mynd af stöðu innviðauppbyggingar í landshlutanum.

 

Ábendingar vel þegnar

Áhersla er lögð á að nýja vefsvæðið verði eins notadrjúgt og kostur er. Áætlað er að áfangastaðaáætlanir allra landshluta verði birtar á eins vefsvæði á næsta misseri.

Allar ábendingar um hvað betur megi fara eða hvernig þróa megi vefsvæðið áfram eru því vel þegnar og munu nýtast í þróun þess fyrir alla landshluta.

Opna vef áfangastaðaáætlunar