Ótvíræður vilji allra innan ferðaþjónustunnar að draga úr líkum á slysum
Líkt og fram kom í frétt frá Vatnajökulsþjóðgarði fyrr í dag hefur þjóðgarðurinn farið þess á leit við hlutaðeigandi ferðaþjónustuaðila að þeir fari ekki í íshellaferðir á svæði þjóðgarðsins að svo stöddu. Er þetta gert í kjölfar þess hörmulega slyss sem varð á Breiðamerkurjökli í gær. Allir ferðaþjónustuaðilar hafa brugðist vel við og með því skapast mikilvægt svigrúm til að ígrunda næstu skref.
Samtal um úrbætur þegar hafið
Vatnajökulsþjóðgarður og Ferðamálastofa hafa þegar hafið samtal við hlutaðeigandi aðila innan ferðaþjónustunnar og stjórnsýslunnar um mögulegar úrbætur og aðgerðir vegna hins hörmulega slyss. Fyrir liggur ótvíræður vilji allra sem starfa við ferðaþjónustu eða koma að eftirliti og leyfisveitingum til rekstraraðila að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að draga úr líkum á slysum sem þessum í framtíðinni.
Bætt öryggi ein af forgangsaðgerðum ferðamálastefnu
Ein af forgangsaðgerðum í nýrri ferðamálastefnu er bætt öryggi ferðamanna. Aðgerðir sem þar eru lagðar til þurfa að vinnast í breiðri samvinnu aðila sem koma að málum, m.a. leiðsögumanna, þar sem ábyrgðarsvið eru dreifð. Til skoðunar hefur verið að gera enn ríkari kröfur til rekstraraðila sem starfa í Vatnajökulsþjóðgarði og hefur sú vinna verið unnin í nánu samstarfi við aðila innan ferðaþjónustunnar, samfélag leiðsögumanna og hlutaðeigandi stofnanir. Von er á tillögum síðar í haust.
Aukin áhersla á öryggismál
Í dag þurfa rekstraraðilar sem hafa leyfi til íshellaferða og jöklagangna innan þjóðgarðsins að uppfylla ýmsar kröfur. Þeir þurfa að vera með eigin öryggisáætlun og einnig að vera með leyfi sem ferðasali dagsferða frá Ferðamálastofu, ásamt því að uppfylla gildandi gæðaviðmið Vakans varðandi íshellaskoðun. Eitt af hlutverkum Ferðamálastofu er að hafa eftirlit með leyfisskyldri starfsemi, þar á meðal öryggisáætlunum. Til að styðja enn frekar við það hlutverk var undir lok síðasta árs bætt við stöðu öryggisfulltrúa. Nú þegar verður haft beint samband við ferðaþjónustuaðila á svæðinu og þeir hvattir til yfirferðar á öryggismálum sínum í ljósi þessa hörmulega slyss.