Samkeppnismat á ferðaþjónustu í samstarfi við OECD - Könnun
Á næstu misserum munu íslensk stjórnvöld í samstarfi við Efnahags- og framfarastofnunina OECD framkvæma samkeppnismat á tilteknum sviðum atvinnulífsins, þ.e. ferðaþjónustu og byggingariðnaði. Tilgangur er að greina gildandi regluumhverfi með tilliti til þess hvort í þeim reglum sem atvinnulífinu er gert að starfa eftir felist samkeppnishindranir eða óþarfa reglubyrði sem ryðja megi úr vegi.
Könnun meðal fyrirtækja
Mikilvægur liður í verkefninu er könnun meðal fyrirtækja sem ferðaþjónustuaðilar eru hvattir til að svara. Um er að ræða netkönnun sem aðeins tekur nokkrar mínútur að svara.
Unnið af OECD
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið fer með framkvæmd samkeppnismála í Stjórnarráði Íslands og mun hafa umsjón með verkefninu í samvinnu við Samkeppniseftirlitið. Verkstjórn verður í höndum samkeppnisdeildar OECD og verkefnið verður unnið af sérfræðingum OECD í samstarfi við Samkeppniseftirlitið, önnur ráðuneyti og stofnanir. Gera má ráð fyrir því að verkefnið taki 18 – 24 mánuði í framkvæmd auk eftirfylgni að því loknu.
Nokkur lykilatriði:
- Tilgangur samkeppnismats OECD (Competition Assessment Review) er að greina og meta regluverk með tilliti til þess hvort það kunni að hamla samkeppni.
- Annars vegar verður gildandi regluverk á tilteknum sviðum metið
- Hins kynning og þjálfun sérfræðinga hins opinbera sem vinna við gerð lagafrumvarpa og reglna sem gilda um atvinnulífið.
- Tilgangur verkefnisins er þannig margþættur og getur það nýst stjórnvöldum til framtíðar með aukinni áherslu á samkeppnislega þætti í laga- og reglusetningu.
- Í verkefninu felst að greina tækifæri til samkeppnislegra úrbóta í regluverki þeirra atvinnugreina sem verða til rannsóknar og í framhaldinu að koma þeim úrbótum í framkvæmd.
- Verkefnið getur nýst til að draga úr reglubyrði á þeim sviðum sem könnuð verða en óþörf reglubyrði eykur kostnað í atvinnulífinu og dregur úr samkeppni.
- Samkeppnismati hefur verið beitt víða um heiminn. Reynslan hefur sýnt að þar sem ráðist hefur verið í umbætur á regluverki til að auka samkeppni hefur samkeppnishæfni og hagvöxtur aukist í kjölfarið.
Nánari upplýsingar á vef atvinnuvega og nýsköpunarráðuneytisins