Sérfræðingar í rannsóknum í ferðaþjónustu funduðu í Reykjavík
Árlegum fundi rannsóknahóps Ferðamálaráðs Evrópu (ETC-Market Intelligence Group) lauk í Reykjavík um liðna helgi. Fundinn sóttu sérfræðingar frá 16 Evróplöndum, auk nokkurra boðsgesta og alþjóðlegra fyrirlesara. Ferðamálastofa sá um skipulagningu fundarins í samvinnu við ETC.
Ferðamálaráð Evrópu (European Travel Commission - ETC) eru samtök sem stofnuð voru árið 1948 og innan þeirra eru nú 33 ferðamálaráð jafnmargra þjóða. Ferðamálastofa hefur í áratugi verið aðili að ETC fyrir Íslands hönd. Markaðsrannsóknir og gagnaöflun er eitt af verkefnum samtakanna og utan um það starf heldur rannsóknahópur ETC. Annað megin verkefni ETC er að markaðssetja Evrópu á fjærmörkuðum, einkum í Bandaríkjunum, Kanada, Brasilíu og Kína.
Allir græða á að deila þekkingu
Rannsóknahópurinn á yfir 30 ára sögu og innan hans starfa margir helstu sérfræðingar á sviði rannsókna og gagnaöflunar í ferðaþjónustu í Evrópu. Á fundinum í Reykjavík var farið yfir nýjustu rannsóknir og stefnur og strauma í ferðaþjónustu, ásamt því sem rannsakendur frá mismunandi Evrópulöndum deildu niðurstöðum sínum og skiptust á skoðunum. Einnig var kosinn nýr formaður fyrir hópinn þar sem Vincen Nijs frá Belgíu tók við af Maltverjanum Leslie Vella. „Samstarf og miðlun þekkingar skilar okkur öllum betri árangri og skilar sér á endanum í aukinni samkeppnishæfni evrópskrar ferðaþjónustu,“ sagði hinn nýkjörni formaður meðal annars.
Gott gengi í Evrópu
Að venju kom margt áhugavert fram á fundinum. „Ferðaþjónusta í Evrópu óx hraðar á árinu 2013 en meðaltalið fyrir aðra heimshluta segir til um. Útlitið fyrir árið 2014 er einnig gott og við búumst við áframhaldandi góðu gengi jafnvel þótt gera megi ráð fyrir að heldur dragi úr komum ferðamanna frá Rússlandi, en sá markaður hefur verið í hvað örustum vexti af markaðssvæðum evrópskrar ferðaþjónustu,“ sagði John Kester frá alþjóða ferðamálaráðinu, UNWTO. Þá var einnig bent á að í fyrra leiddi Ísland góðan vöxt í ferðaþjónustu álfunnar, sé litið til fjölgunar ferðamanna.
Ferðaþjónustan afar atvinnuskapandi
„Vöxtur ferðaþjónustu er gríðarlega mikilvægur fyrir efnahagslíf Evrópu og um allan heim,“ sagði Rochelle Turner frá World Travel & Tourism Council, samtökum þar sem aðild eiga mörg af leiðandi fyrirtækjum í ferðaþjónustu á alþjóðavísu. „Ferðaþjónustan er afar atvinnuskapandi, ekki síst fyrir ungt fólk og á því stóran þátt í að vinna bug á atvinnuleysi víða um heim. Í mörgum löndum er atvinnuþátttaka bæði ungs fólks og kvenna mun hærri í ferðaþjónustu en almennt í atvinnulífinu,“ sagði Rochelle einnig.
Mikilvægt að byggja á vönduðum rannsóknum
Á fundinum í Reykjavík var einnig lagður grunnur að því hvaða, eða hvers konar. rannsóknum ætti að stefna að á næstu misserum. „Niðurstöður vandaðra rannsókna og ráðleggingar sem aðilar innan þessa hóps gefa og eru byggðar á þeim, eru mjög mikilvægar fyrir þróun ferðaþjónustu í Evrópu og til að við getum betur tekist á við þær áskoranir sem greinin stendur frammi fyrir á komandi árum, sagði Peter De Wilde, einn af forsetum ETC meðal annars í ávarpi sínu.
Aðgengileg gögn á vef ETC
Á vef ETC er aðgengi að ýmsum gögnum sem hægt er að nýta sér, meðal annars ársfjórðungslegum skýrslum um þróun og horfur í greininni. Þá eru þar fjölmargar skýrslur og rannsóknaniðurstöður sem hægt að kaupa aðgang að.
Myndir frá fundinum
Myndir eru á Facebook-síðu Ferðamálastofu.