Skapa þarf heildarsýn í menntunarmálum ferðaþjónustunnar
Í morgun voru kynntar niðurstöður greiningar sem KPMG vann að beiðni Ferðamálastofu á framboði og fyrirkomulagi menntunar tengdri ferðaþjónustu og þörfum greinarinnar þar að lútandi.
Utanumhald skortir
Víða var leitað fanga við vinnuna og meðal annars haft samband við tæplega 30 mismunandi aðila innan ferðaþjónustunnar og fræðslustofnanna. Flestir viðmælendur KPMG voru sammála um að framboð menntunar væri sundurleitt og að samráð milli fræðsluaðila ásamt utanumhaldi um málefni menntunar í ferðaþjónustu skorti. Lagt var til að stofnað yrði fræðsluráð sem hefði yfirsýn yfir málefni menntunar í ferðaþjónustu þar sem ættu sæti fulltrúar stjórnvalda og hagsmunaaðila innan greinarinnar. Samandregið eru annars helstu niðurstöður þessar:
Gap milli fjölgunar ferðamanna og fagmenntaðra
Í kjölfar fjölgunar ferðamanna síðustu 5 ár skapast þörf fyrir hröðun í fjölgun fagmenntaðs starfsfólk. Skiljanlega hefur fjölgun fagmenntaðra ekki haldið í við aukinn ferðamannastraum en til lengri tíma litið er nauðsynlegt að fleiri hljóti formlega menntun ef þjónustan á ekki að líða fyrir álag í greininn. Sérstaklega þarf að horfa til fjölgunar fagmenntaðra í hótelstjórnun, framreiðslu, matreiðslu og afþreyingariðnaðinum.
Hindranir námsframgöngu í kerfinu
Töluvert framboð er af námi í ferðaþjónustu og er það jafn fjölbreytilegt og greinin sjálf. Hinsvegar er takmörkuð tenging milli námsstiga og takmarkaðir möguleikar til áframhaldi náms að loknum ýmsum námsbrautum. Þörf gæti reynst á að auðvelda aðgengi að námi með því t.a.m. að bjóða upp á styttra nám í iðnmenntun og samræma kröfur sem til náms eru gerðar til þess að nemendur geti fengið nám metið til árangurs alls staðar í námskerfinu.
Vantar að fyrirtæki sækist eftir menntun
Leiðarljós í rekstri allra fyrirtækja er að hámarka framlegð og arðsemi eiganda. Til þess að svo geti orðið er þörf á sérhæfðu starfsfólki sem býr yfir þekkingu að ná fram þessar hámörkun í sínu starfi. Tilhneigingin í meðalfyrirtæki í ferðaþjónustu hefur hinsvegar verið sú að ráða ófaglærða starfsmenn til skamms tíma.
Efling VAKANS
Miklar vonir eru bundnar við gæðakerfið Vakann og þeirra viðmiða sem í honum felast. Sé vel að því staðið getur slíkt gæðakerfi skapað hvata fyrir fyrirtæki til þess að efla menntun starfsfólks þar sem viðmið í kerfinu krefjast þess.
Skortur á stefnu og heildarsýn
Til þess að ná fram samlegð milli námsleiða og samþættingu náms til hagsbóta fyrir greinina í heild er þörf á að skapa heildarsýn. Þörf er á fagráði um menntun í ferðaþjónustunni þar sem helstu hagsmunaaðilar, fræðsluaðilar, stjórnvöld og fyrirtæki, hefðu samráð um málefni greinarinnar til þess að ná þessu fram.
Töluleg gögn og rannsóknir
Mikið hefur verið rætt um skort á tölulegum gögnum og rannsóknum sem tengjast greininni. Tölfræði sem nýtist til mats á stöðu menntunar er þar ekki undanskilin en til þess að styðja frekar við greinina og vinna skipulega að eflingu menntunar er mikilvægt að geta reiknað t.a.m. mannaflaþörf o.fl.
Skýrslan í heild
Skýrsluna í heild má nálgast hér að neðan.
Betur vinnur vit en strit eða hvað? Greining menntunar í ferðaþjónustunni