Fara í efni

Skrifað undir samninga um 5 stærstu verkefnin til úrbóta í umhverfismálum 2007

Umhverfisstyrkir 2007
Umhverfisstyrkir 2007

Líkt og undanfarin ár auglýsti Ferðamálastofa í desember slíðastliðnum eftir umsóknum um styrki til úrbóta á ferðamannastöðum. Í dag var skrifað undir samninga við þá 5 aðila sem hlutu hæstu styrkina.

Alls barst 131 umsókn, styrkbeiðnirnar hljóðuðu samtals upp á tæpar 218 milljónir króna en til ráðstöfunar voru um 48 milljónir króna. Til viðmiðunar við úthlutun styrkja var stuðst við reglur um forgangsröðun sem fylgt hefur verið síðustu ár. Mikilvægi verkefna er vegið eftir því hver áhrif framkvæmdarinnar eru á náttúru og umhverfi. Í meginatriðum er flokkunin eftirfarandi:

1. Náttúruvernd
2. Upplýsinga- og öryggismál
3. Áningarstaðir
4. Annað

Verkefni sem stuðla að náttúruvernd eru því forgangsverkefni. Einnig er reynt að fylgja eftir því opinbera markmiði sem kemur fram í Ferðamálaáætluninni 2006 - 2015 að uppbygging ferðaþjónustunnar skuli taka mið af sjálfbærri þróun í samfélaginu.
Auk ofangreindra atriða varðandi forgangsröðun er lögð sérstök áhersla á bætt aðgengi fyrir alla að náttúrulegum áningastöðum.

Verkefnin fimm

Ferðaþjónustan Brunnhóli og Ferðaþjónustan í Hólmi hafa unnið að því að byggja upp gönguleiðir og áningastaði við Fláajökul ásamt öðrum landeigendum á svæðinu. Verkefnið fær 2 milljónir til framkvæmdanna.

Hörgárbyggð og Minjasafnið á Akureyri, hafa hafið samstarf um kynningu og uppbyggingu á uppbyggingar á Gásum við Eyjafjörð. Ferðamálastofa hefur styrkt verkefnið vegna kaupa á snyrtiaðstöðu og í ár fær verkefnið 2 milljónir til frágangs við aðkomu, vatnsöflunar fyrir hreinlætisaðstöðuna og gönguleiðir um svæðið.

Sóknarnefnd Þingeyrarklaustursóknar, hefur verið að vinna að úrbótum á aðstöðu fyrir ferðafólk sem sækir Þingeyrarkirkju heim. Ferðamálastofa leggur til 3 milljónir í þjónustuhús sem er í byggingu og þjónar bæði sem safnaðarheimili og móttaka fyrir ferðafólk.

Hveravallafélagið ehf. hefur séð um rekstur þjónustuaðstöðu við Hveravelli í um áratug og vinnur nú að endurnýjun á húsakosti á staðnum. Félagið fær 3 milljónir króna frá Ferðamálastofu vegna uppbyggingar hreinlætisaðstöðu.

Skútustaðahreppur, stendur fyrir vinnu við deiliskipulag við náttúruperluna Dimmuborgir. Í Borgirnar komu á annað hundrað þúsund manns á þriggja til fjögurra mánaða tímabili árið 2006 og jaðrar við að staðurinn sé kominn að þolmörk. Ferðamálastofa leggur til 5.5 milljónir til að vinna deiliskipulag og bæta hreinlætisaðstöðu á svæðinu. Áður hefur Ferðamálastofa stutt við endurbætur á aðgengi um svæðið. Listi yfir alla styrkþega


Skrifað undir samninga um styrkina. Talið frá vinstri: Valur Þór Hilmarsson, umhverfisfulltrúi Ferðamálastofu; Böðvar Pétursson frá Skútustaðahreppi vegna Dimmuborga; Sigurlaug Gissurardóttir frá Ferðaþjónustunni Brunnhóli og Ferðaþjónustunni í Hólmi; Sturla Böðvarsson samgönguráðherra; Magnús Oddsson ferðamálastjóri; Erlendur G. Eysteinsson frá Sóknarnefnd Þingeyrarklaustursóknar; Björn Þór Kristjánsson frá Hveravallafélaginu og Guðmundur Sigvaldason frá Hörgárbyggð.