Nýju meti í fjölda ferðamanna spáð þegar á þarnæsta ári
Mikilvægt að marka skýra stefnu í ferðaþjónustu og treysta innviði
Ráðgjafarfyrirtækið Intellecon kynnti í morgun fyrir hönd Ferðamálastofu fyrstu formlegu spár um meginstærðir í ferðaþjónustu á næstu árum. Megináherslan er á spár til næstu mánaða og allt að þremur árum, eða til 2025. Hins vegar er einnig kynnt spá eða framreikningur á fjölda erlendra ferðamanna til ársins 2030, sem líta má á sem raunhæfa sviðsmynd.
Samkvæmt spánum verða erlendir ferðamann þegar á næsta ári svipað margir og þeir voru metárið 2018 eða yfir 2,3 milljónir. Á þarnæsta ári gerum við ráð fyrir að nýtt Íslandsmet verði slegið með komu um 2,8 milljóna ferðamanna. Árið 2025 verði þeir svo komnir upp undir 3 milljónir.
Langtímaspá til 2030
Í talsvert óvissari langtímaspá eða framreikningi út þennan áratug gerum við ráð fyrir að raunhæf sviðsmynd sé að erlendir ferðamenn hér á landi geti orðið um 3,5 milljónir árið 2030, sem væri um 50% fjölgun frá metárinu 2018.
Til hvers að spá?
Mikilvægi spáa sem þessara felst ekki síst í því að vekja athygli á líklegri þróun mála á næstu misserum og árum, þannig að aðilar í greininni, stjórnvöld og aðrir hagsmunaaðilar hafi ráðrúm til meta sjálfir horfurnar, marka sér stefnu um hvernig menn vilja haga málum og bregðast tímanlega við, m.a. í fjárfestingum og uppbyggingu nauðsynlegra innviða og þjónustu.
Gögn frá fundinum
Upptöku af fyrirlestri Intellecon um spárnar í morgun, glærur úr honum og formlega skýrslu fyrirtækisins um spárnar má nálgast hér að neðan.