Fara í efni

Starfshópur um bætt öryggi ferðamanna tekinn til starfa

Starfshópur um bætt öryggi ferðamanna tekinn til starfa

Starfshópur um bætt öryggi ferðamanna tók til starfa í október síðastliðnum og hóf vinnu sína í samræmi við markmið aðgerðar E.7 í samþykktri aðgerðaáætlun ferðamálastefnu til ársins 2030. Í störfum hópsins verður stuðlað að framgangi forgangsverkefna sem styðja við meginmarkmið aðgerðarinnar sem er að stuðla að bættu öryggi ferðamanna þvert á hið opinbera og atvinnulíf.

Koma með tillögur að úrbótum

Meðal verkefna starfshópsins er að greina öryggismál ferðaþjónustu og koma með tillögur að úrbótum s.s. varðandi:

  • upplýsingagjöf til ferðamanna
  • skráningu slysa og óhappa
  • fjarskiptasamband um landið
  • viðbragðstíma viðbragðsaðila

Einnig er hópnum falið að stuðla að því að fram fari heildstæð endurskoðun á regluverki er snýr að öryggi ferðamanna og eftirlit með því. Í því felst m.a. endurskoðun á útgáfu reglugerðar með stoð í 8. mgr. 11. gr. laga nr. 96/2018 um Ferðamálastofu, þar sem nánar verði kveðið á um form og innihald öryggisáætlana og um framkvæmd við yfirferð og eftirfylgni þeirra. Hluti af þeirri vinnu er einnig endurskoðun á leiðbeinandi reglum Ferðamálastofu um öryggismál ferðaþjónustuaðila sem bjóða upp á afþreyingarferðir, þ.e. ferðaskrifstofa og ferðasala dagsferða.

Áhættumat á áfangastöðum

Starfshópnum er einnig ætlað að skoða innleiðingu áhættumats á áfangastöðum og fyrir tilteknar tegundir afþreyingar. Hópurinn mun leggja áherslu á að kortleggja og meta þær aðferðir sem notaðar eru í dag við áhættumat á áfangastöðum. Horft verði sérstaklega til aðferða þar sem tækifæri eru til að þróa og innleiða áhættumat áfangastaða í stærra samhengi með þeim hætti að matið verði hluti af heildarnálgun við stjórnun áfangastaða í framtíðinni.

Þá er starfshópnum enn fremur falið að fylgja eftir verkefnum sem komu fram í samantekt ráðuneytisstjórahóps um jöklaferðir, í kjölfar banaslyss á Breiðamerkurjökli.

Staða forgangsverkefna

Við upphaf vinnu starfshópsins skilgreindi hann eftirfarandi sex verkefni sem forgangsverkefni: endurskoðun regluverks, skráningu slysa og óhappa, öryggi og ævintýraferðaþjónustu, áhættumat áfangastaða, ferðaþjónustu innan þjóðlendna og menntun leiðsögumanna.

Áframhaldandi vinna starfshópsins

Starfshópurinn vinnur samkvæmt starfsáætlun sem hann hefur sett sér. Hann mun á komandi misserum vinna að framgangi forgangsverkefnanna sex, en auk þess vinna hagaðilagreiningu fyrir málaflokkinn, halda opna fundi um öryggi ferðamanna um landið í samvinnu og samtali við hagaðila.