Tæp 90% Íslendinga hyggja á ferðalög innanlands á næstu mánuðum
Tæplega helmingur landsmanna telur að útbreiðsla kórónaveirunnar muni að nokkru eða miklu leyti hamla ferðalögum innanlands næsta hálfa árið. Engu að síður stefna tæp 90% landsmanna að því að ferðast innanlands. Þetta eru niðurstöður könnunar sem Ferðamálastofa lét framkvæma til að meta áhrif kórónaveirunnar á ferðaáform landsmanna.
Útbreiðsla kórónaveirunnar mun hafa áhrif á ferðalög
Á meðan 46,1% landsmanna telur að útbreiðsla kórónaveirunnar muni hafa nokkur eða mikil áhrif á ferðalög innanlands telja 45,5% landsmanna að veiran komi til með að hafa lítil sem engin áhrif á ferðalög innanlands.
Flestir hyggja á ferðalög innanlands
Þrátt fyrir að útbreiðsla kórónaveirunnar muni hafa töluverð áhrif á ferðalög landsmanna stefna tæp 90% þeirra engu að síður að því að ferðast innanlands næsta hálfa árið. Um 60% ætla að ferðast um landið innan þriggja mánaða.