Fara í efni

Til þeirra sem eru í samskiptum við ferðamenn - Í ljósi frétta dagsins

Líkt og vart hefur farið framhjá neinum þá hófst enn eitt gosið á Reykjanesi í dag. Fréttir af gosinu hafa eins og við er að búast þegar birst í fjölmiðlum erlendis og eru lesnar af erlendum gestum sem hér eru staddir eða hyggja á ferð til landsins. Mikilvægt er nú sem fyrr að við tökum höndum saman um að halda gestum okkar upplýstum um stöðuna og áhrif sem atburðirnir á Reykjanesi hafa á ferðalög fólks.

Þegar þetta er skrifað er stutt liðið frá upphafi gossins og því enn óvissa um áhifin á innviði á Reykjanesi en samkvæmt nýjustu upplýsingum frá ISAVIA verður ekki röskun á flugi til og frá landinu, sem eru mikilvæg skilaboð til að koma á framfæri. Mikilvægt er þó að hafa í huga, eins og reynslan sýnir, að hlutir geta breyst með skömmum fyrirvara og því hvetjum við ykkur til að fylgjast vel með nýjustu fréttum.

Uppfærðar upplýsingar á visiticeland.com

Íslandsstofa hefur líkt og við fyrri atburði útbúið upplýsingapakka sem aðilar í ferðaþjónustu geta nýtt til að bregast við fyrirspurnum frá viðskiptavinum sínum erlendis um stöðuna. Hann getur einnig nýst fyrir starfsfólk í framlínu til að veita upplýsingar. Textann er að finna á Visit Iceland síðunni þar sem reynt verður að halda honum uppfærðum eftir því sem á líður. Slóðin er: https://www.visiticeland.com/article/volcano-info
Þarna inni eigið þið þannig alltaf að geta sótt nýjustu upplýsingar.

Vert er að leggja áherslu á það við erlenda gesti okkar sem hér eru staddir að svæðið er lokað og fólk ætti ekki að reyna að komast að gosinu. Lokunarpóstar hafa verið færðir á eftirfarandi staði. Grindavíkurveg við Reykjanesbraut, Suðurstrandaveg við Krýsuvíkurveg, Nesveg við Hafnir.

Mynd: Björn Oddsson frá Almannavörnum tók myndina í flugi með Landhelgisgæslunni skömmu eftir upphaf eldgossins fyrr í dag.