Ábendingar til ferðaþjónustuaðila um göngur að gosstöðvunum á Reykjanesi
Ferðamálastofa hvetur alla ferðaþjónustuaðila til að leggja áherslu á örugga og eftirminnilega upplifun ferðamanna í ferðum að gosstöðvunum við Fagradalsfjall. Til að tryggja öryggi ferðamanna og leiðsögumanna viljum við benda á eftirfarandi:
Val á gönguleið
Við mælum eindregið með gönguleið A við Fagradalsfjall og að nota bílaplan 1 (sjá kort að neðan), þar sem hægt er að njóta góðrar yfirsýnar yfir hraunið og eldstöðvarnar á öruggum stað. Þó skal haft í huga að:
- Gasmengun frá gosstöðvunum og afgösun hrauns getur skapað hættu.
- Gönguleiðir við Fagradalsfjall eru ekki öruggar þegar vindátt er af gosstöðvum í átt að gönguleiðinni.
Benda má á að eftir að komið er upp á sléttuna eftir Stórhól fæst gott útsýni yfir núverandi gos. Athugið að göngur upp að Kasti (sjá kort) eru ekki leyfðar þar sem það er innan skilgreinds hættusvæðis.
Leiðsögumenn skulu ávallt hafa gasmæli meðferðis og fylgjast náið með veðurspám og vindáttum áður en lagt er af stað. Þá er mikilvægt að leiðsögumenn þekki til svæðisins og þá sérstaklega þegar að kemur að veðurafbrigðum á svæðinu því að veður geta orðið mjög erfið á svæðinu og haft miklar afleiðingar. Sérstaklega ber að varast vindsveipi sem skapast á svæðinu vegna landfræðilegra aðstæðna og geta verið mjög hættulegir.
Aðstæður að vetri
Vetraraðstæður eru nú á svæðinu, sem gerir auknar kröfur til undirbúnings og búnaðar. Við mælum með að leiðsögumenn hafi meðferðis:
- Búnaður til fyrstu hjálpar.
- Fjarskiptabúnað.
- Leiðsögutæki (GPS).
- Aukafatnað, brodda og neyðarskýli.
- Gasmæla.
Þá viljum við benda á að yfir vetrartímann geta myndast snjóflóðahætta á svæðinu sem hafa þarf í huga.
Þegar kemur að undirbúningi fyrir ferðir ættu leiðsögumenn að fara yfir eftirfarandi atriði áður en lagt er af stað:
- Ferðaáætlun og leiðarval.
- Veðurspá og möguleika á snjóflóðum.
- Nauðsynlegan búnað fyrir alla ferðalanga.
- Upplýsingar um þátttakendur (aldur, hæfni o.fl.).
Viðbragðsáætlanir skulu vera meðferðis og aðgengilegar í öllum ferðum.
Leiðsögumenn skulu veita ferðamönnum skýra fræðslu um öryggisatriði, m.a.:
- Aðstæður, veður og tímaáætlanir.
- Mikilvægi hlýs fatnaðar og næringar.
- Rétta notkun öryggisbúnaðar.
- Neyðarnúmerið 112 á Íslandi.
Menntun og þjálfun leiðsögumanna
Ferðamálastofa mælir með að leiðsögumenn hafi lokið námskeiðum eins og:
- Fyrsta hjálp 1 (20 klst) frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg.
- Vettvangshjálp í óbyggðum (WFR) eða sambærilegt námskeið.
- Endurmenntun á þriggja ára fresti.
- Notkun GPS staðsetningartækis
- Notkun áttavita og korts
Við mælum með hlutfallinu 12 þátttakendur á hvern leiðsögumann.
Vakinn viðmið
Við hvetjum ferðaþjónustuaðila til að fylgja viðmiðum Vakans varðandi gönguleiðir í fjalllendi að vetrarlagi við skipulagningu ferða. Viðmið Vakans má finna hér: https://www.vakinn.is/is/gaedakerfi/ferdathjonusta/vidmid
Þökkum ykkur fyrir samstarfið og fyrir að leggja áherslu á öryggi og vandaða þjónustu.