Um 242 þúsund erlendir ferðamenn í ágúst
Um 242 þúsund erlendir ferðamenn fóru frá landinu í ágúst síðastliðnum samkvæmt talningum Ferðamálastofu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eða rúmlega 52 þúsund fleiri en í ágúst á síðasta ári. Aukningin nemur 27,5% milli ára.
Heildarfjöldi ferðamanna frá áramótum er um 1,2 milljónir tæpar eða 32,7% fleiri miðað við fjölda ferðamanna á tímabilinu janúar til ágúst árið 2015.
Fjórar þjóðir helmingur ferðamanna
Fjórar þjóðir voru áberandi fjölmennastar þegar skoðað er hvernig ferðamannahópurinn var samsettur. Þetta voru Bandaríkjamenn, Þjóðverjar, Frakkar og Bretar. Samtals voru ferðamenn frá þessum löndum 122.200 í ágúst, eða ríflega helmingur allra ferðamanna. Sé Ítölum, Kanadamönnum og Spánverjum bætt við þá voru sjö þjóðir með tvo þriðju af heildinni.
Langmest fjölgun í ágúst var meðal Bandaríkjamanna eða 20.500 manns miðað við ágúst 2015. Í prósentum var þetta 56,3% fjölgun á milli ára. Veruleg fjölgun var einnig frá Kanada, ríflega 5 þúsund manns eða 72,1%. Frökkum fjölgaði um 4.651 (28,7%), Þjóðverjum um 3.636 (15,6%), Bretum um 2.495 (16,6%), Ítölum um 2.361 (26,1%) og Spánverjum um 2.003 (22,2%).
Sexföldun N-Ameríkana frá 2010
Þegar litið er til fjölda ferðamanna í nýliðnum ágústmánuði eftir markaðssvæðum má sjá nokkuð verulega fjölgun frá árinu 2010 frá flestum svæðum. Mest áberandi er breytingin hjá Norður-Ameríkönum en fjöldi þeirra hefur nærri sjöfaldast, að miklu leyti síðustu þrjú ár. Fjöldi Breta hefur nærri þrefaldast og fjöldi Mið- og Suður Evrópubúa ríflega tvöfaldast. Fjöldi ferðamanna frá löndum sem lenda í hópnum ,,annað“ hafa nærri þrefaldast. Norðurlandabúum hefur hins vegar fjölgað minnst eða um 25.5% frá 2010.
Breytt samsetning eftir markaðssvæðum
Samsetning ferðamanna eftir markaðssvæðum hefur breyst töluvert frá árinu 2010 eins og sjá má af myndinni hér til hliðar. Í ágúst síðastliðnum voru Norður Ameríkanar 28,5% af heildarfjölda en hlutdeild þeirra var ekki nema 12,5% árið 2010. Hlutfall Mið- og Suður Evrópubúa og Norðurlandabúa hefur hins vegar lækkað verulega frá árinu 2010. Hlutdeild Breta og annarra markaðssvæða hefur hins vegar staðið í stað.
Ferðir Íslendinga utan
Um 44 þúsund Íslendingar fóru utan í ágúst síðastliðnum eða 4.337 fleiri en árið 2015. Um er að ræða 10,9% fleiri brottfarir en í ágúst 2015 en talsvert færri en í júlí síðastliðnum þegar um 55 þúsund Íslendingar fóru til útlanda um Keflavíkurflugvöll.
Nánari upplýsingar
Talningar Ferðamálastofu ná yfir allar brottfarir frá landinu um Leifsstöð. Skiptingu milli landa má sjá í töflunni hér að neðan og nánari upplýsingar undir liðnum Tölur og útgáfur / Fjöldi ferðamanna hér á vefnum.