Fara í efni

Húnabyggð fær Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu fyrir Þrístapa

Í dag var tilkynnt að Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu fyrir árið 2024 komi í hlut sveitarfélagsins Húnabyggðar fyrir uppbyggingu við Þrístapa. Verkefnið var á höndum Húnavatnshrepps áður en sveitarfélögin sameinuðust.

Um er að ræða áhugaverðan menningarsögulegan ferðamannastað, vestast í Vatndalshólum norðan þjóðvegarins. Við veginn er að finna síðasta aftökustaðinn á Íslandi. Aftakan fór fram þann 12. janúar 1830 þegar þau Agnes Magnúsdóttir og Friðrik Sigurðsson voru hálshöggvin. Sagan hefur verið vinsælt viðfangsefni, bæði í skáldsögum og kvikmynd.

Þrístapar hafa verið gerðir aðgengilegir og öruggir fyrir ferðamenn til að upplifa og fræðast um söguna. Uppbygging hefur staðið yfir um nokkurt skeið en þarna hefur verið komið fyrir göngustíg, upplýsinga- og fræðsluskiltum, bílastæði og salerni. Minningarsteinn er á aftökustaðnum en höggstokkurinn og öxin eru varðveitt á Þjóðminjasafni Íslands.

 

 

Umhverfisverðlaun veitt frá árinu 1995

Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu eru hugsuð sem hvatning og áminning til þeirra sem koma að ferðaþjónustu um að huga vel að umhverfinu í allri skipulagningu og framkvæmd. Þau hafa verið veitt árlega frá árinu 1995 og er þetta því í 30. sinn sem þau eru afhent. Verðlaunin eru nú í áttunda sinn veitt fyrir verkefni sem hlutu styrk úr Framkvæmdasjóði ferðmannastaða og voru til fyrirmyndar. Það þýðir að verkefninu sé lokið, reglum framkvæmdasjóðsins fylgt og það hafi verið í samræmi við áherslur sjóðsins um sjálfbæra þróun, gæði hönnunar og skipulags.

Listi yfir verðlaunahafa