Vel sóttur upplýsingafundur vegna COVID-19
Ferðamálastofa og Samtök ferðaþjónustunnar boðuðu í dag til upplýsingafundar vegna COVID-19. Fundurinn var ætlaður forsvarsfólki og stjórnendum í ferðaþjónustunni. Um 70 manns mættu á fundinn, um 300 fylgdust að jafnaði með í beinu streymi á netinu og var mikil ánægja með framtakið.
Fram kom að Ferðamálastofa og SAF áforma annan fund innan skamms þar sem réttindi og skyldur ferðafólks og fyrirtækja verða umfjöllunarefnið.
Framsögu á fudninum í dag höfðu Rögnvaldur Ólafsson frá Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra og Íris Marelsdóttir frá Embætti landlæknis. Þá fór Jóhannes Skúlason framkvæmdastjóri SAF yfir stöðu greinarinnar og það sem helst brennur á þessa dagana.
Rögnvaldur fór yfir lykilatriðin varðandi viðbrögð yfirvalda, hvað hafi verið gert og hvers vegna, meðal annars varðandi smitrakninguna. Í máli hans kom fram hversu hratt staðan breytist frá degi til dags og stundum oft á dag.
Íris Marelsdóttir fór yfir það efni á vef Landlæknis sem sérstaklega snýr að ferðaþjónustunni. Hún fór sérstaklega yfir leiðbeiningar fyrir framlínustarfsfólk, sem Ferðamálastofa og SAF létu þýða á nokkur tungumál og gagnast vel. Þær eru nú í endurskoðun og kallaði Íris eftir athugasemdum og ábendingum frá greininni fyrir nýja útgáfu.
Jóhannes Skúlason fór yfir hvernig Samtök ferðaþjónustunnar hafa unnið síðustu vikur. Hann lýsti ánægju með samstarfið við viðbragsaðila og hlakkaði til að heyra af frekari viðbrögðum frá yfirvöldum til að draga úr högginu fyrir atvinnugreinina.