Fara í efni

Út um allt – Fyrsti vefurinn sem byggir á gönguleiðaverkefni Ferðamálastofu

 

Út um allt nýr upplýsingavefur um útivistarmöguleika á höfuðborgarsvæðinu, var formlega tekinn í notkun á dögunum. Vefurinn byggir á miðlægu skráningarkerfi og gagnagrunni Ferðamálastofu um gönguleiðir og útivistarsvæði um land allt.

 

Þróunarverkefni um gönguleiðir

Gönguleiðaverkefni Ferðamálastofu hefur verið í þróun síðustu ár og þar má nú finna yfir 100 gönguleiðir. Grunninum er ætlað að nýtast þeim sem vilja birta upplýsingar um leiðir á sínu svæði, t.d. markaðs og áfangastaðastofum landshlutanna og sveitarfélögum. Út um allt er fyrsti vefurinn sem byggir alfarið á grunninum þannig að höfuðborgarsvæðið reið á vaðið og lagði því sitt að mörkum í þróun grunnsins síðustu mánuði í samvinnu við Ferðamálastofu.

 

Einfaldur í notkun

Út um allt  er samstarfsverkefni Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins. Á vefnum má finna yfir 30 útivistarsvæði og 40 göngu- og hjólaleiðir um allt höfuðborgarsvæðið og mun bætast í eftir því sem vefurinn þróast. Vefurinn er einfaldur í notkun og sýnir staðsetningu notanda á korti í rauntíma. Leiðum fylgja gagnlegar upplýsingar, til að mynda um erfiðleikastig og tímalengd. Á síðunni er góð leitarvél og hægt er að sía eftir ýmsum breytum á borð við sveitarfélag, aðstöðu, þjónustu og aðgengi.

Nánar á vef Markaðsstofu Höfuðborgarsvæðisins