Útboð fyrir landamærarannsókn og skiptingu þjóðerna
Fjársýslan fyrir hönd Ferðamálastofu hefur óskað eftir tilboðum í Landamærarannsókn og mælingu á skiptingu þjóðerna þeirra sem fara um Keflavíkurflugvöll. Um er að ræða grunngögn fyrir íslenska ferðaþjónustu hvað varðar mat á umfangi greinarinnar og þróun hennar.
Útboðinu er ekki skipt upp í hluta en um er að ræða þrjá verkþætti:
- Verkþáttur 1: Landamærarannsókn framkvæmd
- Verkþáttur 2: Landamærarannsókn gagnavinnsla
- Verkþáttur 3 : Þjóðernatalning (mæling á skiptingu þjóðerna) Mynd: ©Ragnar Th. Sigurðsson
Mynd af atferli og viðhorfum ferðamanna
Landamærakönnun Ferðamálastofu er unnin sem brottfararkönnun á Keflavíkurflugvelli allt árið um kring. Markmiðið er að afla tölfræðilegra upplýsinga til að geta gefið mynd af atferli og viðhorfum ferðamanna sem heimsækja landið, skapa forsendur til að fylgjast með breytingum og þróun á ferðamarkaðnum og mynda þannig kjölfestu til framtíðar í þekkingu um ferðamenn. Niðurstöður leiða m.a. í ljós hvernig ákvörðunarferli varðandi Íslandsferð er háttað, gefa upplýsingar um ferðahegðun hérlendis og upplifun og viðhorf til þátta sem snerta ferðaþjónustuna. Niðurstöður eru birtar reglubundið í Mælaborði ferðaþjónustunnar og einnig í samantektarskýrslum á vef Ferðamálastofu.
Skipting þjóðerna og fjöldi erlendra ferðamanna
Til að meta hvernig þeir sem heimsækja landið skiptast eftir þjóðernum hefur um árabil verið byggt á brottfarartalningum Ferðamálastofu í Flugstöðinni í Keflavík. Um er að ræða könnun þar sem farþegar eru spurðir um þjóðerni áður en þeir ganga inn í öryggisleit. Hlutfallsleg skipting brottfararfarþega er svo umreiknuð í farþegafjölda á þjóðerni út frá tölum Isavia um heildarfjölda brottfara. Niðurstöður eru birtar mánaðarlega í Mælaborði ferðaþjónustunnar og vef Ferðamálastofu.
Skilafrestur er til 12. mars kl. 12:00.