VAKINN - Endurskoðuð viðmið
Endurskoðuð viðmið VAKANS, gæða- og umhverfiskerfis ferðaþjónustunnar, tóku gildi 1. janúar síðastliðinn.
Grundvöllur kerfisins
Viðmiðin eru það sem gæðakerfi VAKANS byggir á, þ.e. eru sjálfur grundvöllur kerfisins. Í þeim kemur fram hvaða þættir það eru sem fyrirtæki þurfa að uppfylla til að gerast þátttakendur í VAKANUM. Viðmiðin skiptast í tvennt:
- Almenn viðmið - sem eiga við allar tegundir starfsemi
- Sértæk viðmið - sem eiga sérstaklega við hvern þjónustuflokk
Þá eru sérstök viðmið fyrir umhverfiskerfi VAKANS og hafa þau einnig verið uppfærð lítillega.
Ný viðmið stjörnumerkt
Endurskoðunin felur fyrst og fremst í sér orðalagsbreytingar sem gerðar voru í þeim tilgangi að skýra viðmiðin og til samræmingar. Þá hafa nokkur ný viðmið bæst við almenn viðmið og sértæk viðmið og eru þau stjörnumerkt í nýju útgáfunni.
Ábendingar vel þegnar
„Við hjá VAKANUM hvetjum ferðaþjónustuaðila til að kynna sér viðmiðin og þiggjum með þökkum allar ábendingar,“ segir Áslaug Briem, verkefnastjóri gæðamála. Nánari upplýsingar má fá hjá Áslaugu, aslaug@ferdamalastofa.is