Upptaka af kynningarfundi um val á þjóðhagslíkani fyrir ferðaþjónustuna
Í byrjun vikunnar kynnti Ferðamálastofa fyrsta áfanga í vinnu við vali á þjóðhagslíkani fyrir Ferðaþjónustuna. Um er að ræða fyrsta hlutann af þriggja ára verkefni á vegum Ferðamálastofu.
Dr. Marías Gestsson hjá ráðgjafarfyrirtækinu Hagrannsóknum sf. kynnti á hádegisfyrirlestri þá vinnu sem átt hefur sér stað. Hann fór í því skyni yfir helstu tegundir þjóðhagslíkana, eiginleika þeirra og notagildi og rökstuddi af hverju tiltekin gerð þjóðhagslíkans hentar best sem geiralíkan fyrir íslensku ferðaþjónustuna, sem tengja má við þjóðhagslíkön stjórnvalda fyrir hagkerfið í heild og keyra saman við þau.
Búa til betra greiningartæki fyrir stjórnvöld og atvinnugreinina
Sem fyrr segir er um að ræða fyrsta hlutann af þriggja ára verkefni á vegum Ferðamálastofu sem ráðist var í síðastliðið haust. Fullbúnu geiralíkani ferðaþjónustunnar er ásamt fyrirliggjandi þjóðhagslíkönum ætlað að verða mikilvægt tæki til högg- og aðgerðagreiningar fyrir stjórnvöld og greinina (m.a. við áföll og búhnykki), meta áhrif ferðaþjónustunnar á efnahagslífið í heild (s.s. VLF og atvinnustig) og áhrif annarra þátta efnahagslífsins (s.s. gengis, verðlags, atvinnustigs og skatta) á ferðaþjónustuna. Líkaninu er einnig ætlað að spá fyrir um framlag ferðaþjónustunnar til efnahagslífsins og hagvaxtar í framtíðinni á grundvelli spáa um umsvif í ferðaþjónustu.
Skýrslur með rökstuðningi fyrir vali á geiralíkani fyrir ferðaþjónustuna
Ferðamálastofa mun birta á vef sínum tvær skýrslur Dr. Maríasar og Hagrannsókna sf. um eiginleika og notagildi mismunandi tegundir þjóðhagslíkana og val á líkani fyrir íslenska ferðaþjónustu.
Hægt er að skoða upptöku frá kynningunni hér að neðan: