Vaxandi mikilvægi gæða- og umhverfisvottunar í hugum ferðafólks
Sífellt fleiri ferðamenn sem hingað koma segi það skipta máli við kaup á ferðatengdri þjónustu að viðkomandi fyrirtæki hafi viðurkennda gæða- og umhverfisvottun. Þetta er meðal þess sem lesa má úr niðurstöðum könnunar Ferðamálastofu meðal erlendra ferðamanna. Þá er einnig vaxandi þekking á Vakanum.
Skiptir máli fyrir 70%
Sé litið til niðurstaðna fyrir árið 2018 þá voru sjö svarendur af hverjum tíu, eða 70%, á því að það skipti frekar eða mjög miklu máli að ferðaþjónustufyrirtæki hefði gæðavottun þegar þeir stæðu frammi fyrir vali á fyrirtæki. Enn fleiri, eða eða fjórir svarendur af hverjum fimm (78,5%) voru á því að umhverfisvottun skipti frekar eða mjög miklu máli.
Asíubúar voru í ríkari mæli á því að gæðavottun skipti máli en önnur markaðssvæði og Suður-Evrópubúar í ríkari mæli á því að umhverfisvottun skipti máli en aðrir.
Hefur vaxið í gegnum árin
Í fyrsta sinn sem spurt var um þessi atriði í könnun Ferðamálastofu, sumarið 2011, var hlutfall þeirra sem taldi gæðavottun skipta máli við val á fyrirtæki 56,2% en hefur síðan farið hækkandi og var til að mynda 62,4% sumarið 2016.
Vakinn að verða þekktari
Þá er einnig ánægjulegt að vitund ferðamanna um Vakinn, gæða og umhverfiskerfi ferðaþjónustunnar fer vaxandi og árið 2018 þekktu rúm 15% aðspurðra fyrir hvað hann stendur, sé horft árið í heild.
Nánari niðurstöður
Nánar má kynna sér þessar niðurstöður í nýrri skýrslu með úrvinnslu og samantekt fyrir árið 2018, sem unnin er úr gögnum könnunarinnar. Í skýrslunni eru niðurstöður settar fram með myndrænum hætti og í töflum þar sem finna má svör eftir helstu þjóðernum og markaðssvæðum. Tenging er inn á töflusett í Excel með frekari greiningu gagna eftir fleiri bakgrunnsbreytum og tímabilum.