Fara í efni

Vestnorden á Akureyri að ári liðnu


Ferðamálastjórar landanna þriggja sem standa saman að Vestnorden. F.v. Anna Nivike Groden frá Grænlandi, Arnar Már Ólafsson og Guðrið Hojgaard frá Færeyjum. Myndin var tekin í Færeyjum í vikunni.

Tilkynnt var á lokahófi Vestnorden ferðakaupstefnunnar í Færeyjum í gærkvöld að Vestnorden 2025 verður haldin á Akureyri að ári liðnu, nánar tiltekið dagana 30. september - 1. október. Þetta verður 40. Vestnorden kaupstefnan en hún var haldin fyrst árið 1986.

Mikilvægur vettvangur viðskipta í ferðaþjónustu

Vestnorden er mikilvægasti vettvangur viðskipta í ferðaþjónustu á Norður – Atlantshafssvæðinu og er hún haldin annað hvert ár á Íslandi og hin árin til skiptis í Færeyjum og á Grænlandi. Þar koma saman ferðaþjónustufyrirtæki frá Íslandi, Færeyjum og Grænlandi til að kynna vöruframboð sitt fyrir erlendum ferðaþjónustuaðilum sem sækja kaupstefnuna. Kaupstefnan er mikilvægasta samstarfsverkefni landana þriggja undir merki NATA, North-Atlantic Tourism Association. Íslandsstofa er framkvæmdaraðili Vestnorden þegar hún er haldin á Íslandi.

Fjölmennt í Færeyjum

Í ár var metþátttaka af kaupendum og seljendum af þeim skiptum sem Vestnorden hefur verið haldin í Færeyjum, eða 423 þátttakendur frá 127 fyrirtækjum. Þar af voru 70 fyrirtæki frá Íslandi, 34 frá Grænlandi og 23 frá Færeyjum. Kaupendur komu frá 26 mismunandi löndum víðsvegar að úr heiminum.

Í 6. sinn á Akureyri

Þetta verður í 6. skipti sem Vestnorden fer fram á Akureyri en síðast var kaupstefnan þar árið 2018. Gera má ráð fyrir um 600 gestum en kaupstefnan er jafnan fjölmennust þau ár sem hún er haldin á Íslandi.

Myndirnar hér að neðan tók Elías Bjarni Gíslason, forstöðumaður þróunar- og þjónustusviðs Ferðamálastofu og stjórnarformaður NATA, á Vestnorden nú í vikunni.