Vestnorden ferðakaupstefnan hafin
Vestnorden ferðakaupstefnan var sett í dag á Akureyri . Þar koma saman yfir 550 seljendur ferðaþjónustu á Íslandi, Grænlandi og Færeyjum og kaupendur víðs vegar að úr heiminum.
Kaupstefnan er einstakt tækifæri fyrir seljendur ferðaþjónustu þessara landa til að komast í tæri við mögulega kaupendur, byggja upp viðskiptasambönd og selja þjónustu sína. Hún er einnig mikilvægt tækifæri fyrir Vestnorrænu löndin að samþætta þjónustu sína og efla samvinnu sín á milli, í samvinnu þessara landa felast mikil ferðaþjónustutækifæri.
Haldin í Hofi og Íþróttahöllinni
Kynningar á aðildarlöndum kaupstefnunnar og móttökur fara fram í nýju og glæsilegu menningarhúsi Akureyringa, Hofi, en kaupstefnan sjálf fer fram í Íþróttahöllinni. Þar hefur verið stillt upp glæsilegum sýningarsal fyrir yfir 200 sýnendur, langstærstur hluti þeirra íslenskir ferðaþjónustuaðilar. Íþróttahöllin mun því iða af lífi en kaupstefnan er með þeim stærstu sem sett hefur verið upp í húsinu.
Kaupendur koma víða að
Ferðaheildsalarnir eða kaupendurnir eru frá tæplega 100 fyrirtækjum, alls 125 talsins og koma frá 25 löndum, Ástralíu, Bretlandi, Thailandi, Bandaríkjunum, Norðurlöndunum og meginlandi Evrópu. Þá koma einnig til kaupstefnunnar blaðamenn og boðsgestir, alls eru því hátt í 600 manns sem koma að kaupstefnunni með einum eða öðrum hætti.
Formleg dagskrá Vestnorden hófst með ráðstefnu í Hofi fyrir hádegi í dag þar sem meðal annars voru kynningar frá öllum landshlutum. Eftir hádegi hófst hin eiginlega kaupstefna í Íþróttahöllinni með fyrirframbókuðum fundum kaupenda og seljanda, eða ferðaheildsala.
North Atlantic Tourism Association (NATA) stendur fyrir kaupstefnunni en Ísland, Grænland og Færeyjar eru aðilar að NATA. Kaupstefnan er haldin árlega, annað hvert ár á Íslandi og annað hvert ár til skiptis í umsjón Færeyinga og Grænlendinga. Kaupstefnan í ár er sú 25. í röðinni. Kaupstefunni lýkur með hátíðardagskrá á fimmtudagskvöld sem fram fer í Flugsafninu og í Íþróttahöllinni.