Vesturland sækir á og dregur úr árstíðasveiflunni
Á hádegiskynningu Ferðamálastofu í dag voru kynntar nýjar niðurstöður um fjölda og dreifingu ferðamanna 2018 þar sem byggt er á talningum á fjölda áfangastaða um allt land. Einnig eru skoðaðar breytingar á milli síðustu ára.
Aðferðafræðin þróuð frá 2014
Verkefnið var unnið fyrir Ferðamálastofu af Rögnvaldi Ólafssyni og Gyðu Þórhallsdóttur og byggir á aðferðafræði sem þau hafa þróað síðustu ár til að meta fjölda ferðamanna á áfangastöðum með því að telja bifreiðar sem koma á áfangastaðinn. Aðferðin var prófuð í tengslum við verkefni Ferðamálastofu á 8 áfangastöðum á Suður- og Vesturlandi 2014 til 2015 og reyndist vel. Rögnvaldur og Gyða þróuðu síðan aðferðina frekar fyrir atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið á árunum 2016 og 2017. Stöðum hefur fjölgað jafnt og þétt og árið 2018 var talið á 34 stöðum, 23 allt árið (á láglendi) og á 11 sumarmælistöðum (allir á hálendinu).
Mikilvæg gögn í skipulagi ferðamála
Talningar eru ein leið til að meta hvert ferðamenn fara og hve margir ferðamenn eru á helstu áfangastöðum og útfrá þeim má sjá hvernig ferðamenn dreifast um landið. Einnig má greina árstíðasveiflu á talningastöðunum. Hér eru því á ferðinni afar mikilvæg og áhugaverð gögn við skipulag og uppbyggingu í ferðaþjónustu.
Helstu niðurstöður
- Árið 2018 dró mjög úr þeirri miklu fjölgun sem varð eftir 2010
- Suðurland er vinsælt meðal ferðamanna allt árið um kring
- Árstíðasveifla er mun meiri annars staðar á landinu
- Snæfellsnes og Borgarfjörður virðast vera að sækja á og þar bæði fjölgar ferðamönnum og dreifing yfir árið er að batna
- Margir ferðamannastaðir á Norður- og Vesturlandi eru vannýttir utan háannar
- Það er að draga úr árstíðasveiflunni, þótt enn mjakist hægt til betri vegar
Efni og upptökur
Þá má nálgast efni og upptökur frá fundinum í dag hér að neðan.
Niðurstaða verkefnisins verður kynnt nánar í skýrslu sem kemur út á næstu vikum og gögn verða einnig aðgengileg í Mælaborði ferðaþjónustunnar.
Næstu kynningar
Næsta hádegiskynning sem Ferðamálstofa mun standa fyrir verður þriðjudaginn 28. maí. Þar verður kynning á niðurstöðum Landamærakönnunar Ferðamálastofu og Hagstofunnar 2018 á upplifun og ferðahegðun.