Vinir Vatnajökuls úthluta tæplega 40 milljónum í styrki
Vinir Vatnajökuls úthlutuðu á dögunum tæplega 40 milljónum króna til styrktar 22 verkefnum sem falla undir rannsóknir, kynningu og fræðslu um Vatnajökulsþjóðgarð og nágrenni hans.
200 milljónir á fjórum árum
Formaður stjórnar Vina Vatnajökuls, Sigurður Helgason, afhenti styrkina við hátíðlega athöfn á Hótel Natura. Vinir Vatnajökuls hafa nú á fjórum árum veitt tæplega 200 milljónum króna í fræðsluverkefni og styrki.
Frjáls félagasamtök
Vinir Vatnajökuls frjáls félagasamtök sem stofnuð voru í júní árið 2009, ári eftir stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs. Í ár bárust samtökunum 49 styrkumsóknir og því var fagráði samtakanna vandi á höndum við val á styrktarverkefnum. ,,Við erum afar ánægð og stolt að styrkja þessi verkefni sem stuðla að samspili þjóðgarðsins og samfélagsins og efla skilning umheimsins á mikilvægi þjóðgarðsins og einstakri náttúru hans á heimsvísu,“ segir Kristbjörg Hjaltadóttir, framkvæmdastjóri Vina Vatnajökuls.
Margir lagt lið
Kristbjörg segir að til að ná settum markmiðum og sinna sínu hlutverki þurfi Vinir Vatnajökuls á liðsinni að halda. Fram til þessa hafa margir lagt Vinunum lið, en stærstu bakhjarlar samtakanna eru Alcoa fjarðaál, Íslensk Erfðagreining, Landsvirkjun og þeir einstaklingar sem gerst hafa Vinir og veitt stuðning frá upphafi.
Dómnefnd skipuðu Guðmundur Óskarsson, Icelandair, Svava Pétursdóttir, doktor við Háskóla Íslands og María Guðmundsdóttir, upplýsinga- og fræðslufulltrúi SAF.