Lýsing |
Íslandsbanki gefur í ár út skýrslu um íslenska ferðaþjónustu í þriðja sinn. Með útgáfunni vill Íslandsbanki leggja sitt að mörkum við að upplýsa um stöðu ferðaþjónustunnar. Er það von okkar að skýrslan reynist gagnleg og góð viðbót við þá miklu umfjöllun sem greinin hefur alið af sér og verðskuldar.
Helstu niðurstöður:
- Við spáum því að um 2,3 milljónir ferðamanna muni heimsækja Ísland á þessu ári sem nemur fjölgun um 30% frá síðasta ári. Gangi spáin eftir mun ferðamönnum fjölga um 530 þús. milli áranna 2016 og 2017 sem er metfjölgun á einu ári hér á landi.
- Næsta sumar verður einn af hverjum fimm á landinu ferðamaður
- Við spáum því að gjaldeyristekjur af erlendum ferðamönnum verði um 560 ma.kr. í ár, eða sem nemur um 45% af gjaldeyristekjum þjóðarbúsins. Til samanburðar áætlum við að gjaldeyristekjur af erlendum ferðmönnum hafi numið 466 mö.kr. í fyrra eða 39% af gjaldeyristekjum þjóðarbúsins.
- Hver ferðamaður sem kom inn í landið skilaði um 202 þús.kr. til þjóðarbúsins og eru tveir stærstu útgjaldaliðir ferðamanna flugfargjöld og gisting.
- Rúmlega 90% erlendra ferðamanna ferðast hingað til lands með flugi. Til samanburðar er þetta hlutfall um 54% í ríkjum OECD.
- Við reiknum með því að innlendu flugfélögin tvö muni standa fyrir um 75% flugframboðs um KEF á árinu 2017. Icelandair verður stærsta flugfélagið í Keflavík með tæplega helming flugframboðs um flugvöllinn en WOW næststærst með tæplega þriðjung framboðsins.
- Þrátt fyrir að erlend flugfélög hafi aukið komur sínar hingað síðustu ár hafa innlendu félögin skilað bróðurhluta vaxtarins í farþegafjölda.
- Af framboði erlendra flugfélaga var um fjórðungur flug- framboðs síðasta árs frá Easyjet en flugfélagið flýgur hingað allt árið um kring og hefur flogið hingað frá árinu 2012. Næstmestu framboði erlendra flugfélaga skilaði SAS.
- Gistiþjónusta nemur um 21% af heildarútgjöldum erlendra ferðamanna hér á landi.
- Hlutfallslega fleiri erlendir ferðamenn velja nú að gista í íbúðarhúsi, orlofshúsi eða í heimagistingu og færri á hótelum og gistiheimilum en á árinu 2010.
- Gistiþjónusta á landsbyggðinni hefur vaxið hraðar en á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2013 og er um þessar mundir rúmlega helmingur allra seldra gistinátta á landsbyggðinni. Engu að síður er árstíðasveifla ennþá vandamál á landsbyggðinni þrátt fyrir að hún hafi minnkað nokkuð á undanförnum árum.
- Í samanburði við Norðurlöndin var verð hótelherbergja á árinu 2016 hæst í Reykjavík og var það á bilinu 10-32% hærra en í öðrum höfuðborgum Norðurlandanna.
- Áætluð fjölgun hótelherbergja á árinu 2017 nemur um þriðjungi af áætlaðri þörf. Mun það, að öðru óbreyttu, stuðla að hærri nýtingu hótelherbergja og auknu umfangi deilihagkerfisins og annars konar gistiþjónustu.
- Á síðastliðnu ári var meðalfjöldi virkra gistirýma á Airbnb í Reykjavík 2.000 og fjölgaði þeim um 116% sem nemur rúmlega tvöföldun frá árinu á undan. Gistirými á Airbnb voru bæði leigð út oftar og einnig lengur í senn að meðaltali á síðastliðnu ári en 2015.
- Að meðaltali voru um 300 íbúðir í útleigu öllum stundum á Airbnb á árinu 2015 og um 809 á árinu 2016. Er þetta aukning um 509 íbúðir en til samanburðar voru 399 fullgerðar nýjar íbúðir í Reykjavík á árinu 2016. Fjölgun íbúða í heilsársútleigu á Airbnb hefur því verið talsvert umfram fjölgun nýrra íbúða í Reykjavík yfir sama tímabil og þannig átt stóran þátt í mikilli hækkun íbúðaverðs á svæðinu.
- Heildartekjur vegna útleigu gistirýma á Airbnb nam um 6,76 mö.kr. á árinu 2016 og um 2,51 ma.kr. á árinu 2015. Heildartekjur jukust því um 4,25 ma.kr. á milli ára eða um 169%.
- Meðaltekjur af hverju gistirými voru um 271 þús. kr. á mánuði á árinu 2016 og hækkuðu um 25% frá fyrra ári. Er það ígildi þess að tekjur af hverju gistirými, m.v. heilsársleigu, hafi verið um 3,25 m.kr. að meðaltali árið 2016.
- Um þriðjungur ferðamanna eða um 586 þúsund hefði getað nýtt sér gistiþjónustu í gegnum Airbnb á árinu 2016 m.v. fulla nýtingu.
- Heildarframboð gistinátta á Airbnb í Reykjavík nam um 2,35 milljónum á árinu 2016 eða um 69% af heildarframboði gistinátta hótela á höfuðborgarsvæðinu á sama ári.
- Framboð gistinátta á Airbnb í Reykjavík yfir háannatímann síðastliðið sumar var ennþá hærra sem hlutfall af framboði gistinátta á hótelum á höfuðborgarsvæðinu eða um 87%.
- Haldi gistiþjónusta í gegnum Airbnb áfram að vaxa líkt og á undanförnum árum má ætla að afkastageta Airbnb í Reykjavík verði orðin sambærileg við afkastagetu allra hótela höfuðborgarsvæðisins til samans á líðandi ári.
- Bílaleiguflotinn taldi 20.847 bíla þegar hann var hvað stærstur á árinu 2016 samanborið við 15.400 bíla árið 2015. Það jafngildir því að næstum 1 af hverjum 10 bílum á landinu sé bílaleigubíll.
- Millistórum og stórum rekstraraðilum á bílaleigumarkaðnum fjölgar ennþá. Um 85% af bílum í bílaleiguflotanum eru í eigu 20 stærstu aðilanna á markaðnum.
- Eftir 2008 hafa um 43% af öllum seldum nýjum bílum farið til bílaleigna. Á árinu 2016 keyptu bílaleigur um 9.250 nýja bíla eða um 42% af heildarsölunni.
- Meðal bílaleigubíll kostar um 3 m.kr. án vsk. og nam bein fjárfesting vegna bílakaupa hjá bílaleigum því hátt í 30 ma.kr. á síðasta ári. Er þá ótalin önnur fjárfesting svo sem í húsnæði og aðstöðu.
- Búist er við að velta bílaleigugreinarinnar muni nema allt að 60 milljörðum króna á árinu 2017, samanborið við 35 milljarða árið 2015.
- Nýskráningum hópbifreiða fjölgaði úr 184 árið 2015 í 412 árið 2016 eða um 124%.
- Rekja má um helming þeirra starfa sem skapast hafa í hagkerfinu frá árinu 2010 til ferðaþjónustunnar beint eða óbeint.
- Hvert starf innan ferðaþjónustunnar er að skila auknum virðisauka og hefur framleiðni vinnuafls innan greinarinnar aukist talsvert síðustu ár.
- Um 41% fyrirtækja er starfa við samgöngur, flutninga og ferðaþjónustu töldu að skortur væri á starfsfólki í desember á árinu 2016.
- Skorti á starfsfólki er í vaxandi mæli mætt með erlendu vinnuafli og má áætla að hlutfall erlends vinnuafls í ferðaþjónustu verði u.þ.b. þrefalt hærra en í íslensku atvinnulífi almennt.
- Í fyrra var metár í fjölgun ferðamanna þrátt fyrir metár í styrkingu krónunnar. Vöxtur ferðaþjónustunnar hefur haft mikil áhrif til styrkingar á krónunni. Sterk króna hefur hins vegar neikvæð áhrif á greinina.
- Gengi krónunnar var 16% hærra í desember 2016 en á sama tíma árið áður. Mest var hækkunin gagnvart pundi (38%) en hún hefur verið mun minni gagnvart dollara (15%) og evru (19%). Frá þessum myntsvæðum eru u.þ.b. tveir af hverjum þremur ferðamönnum sem hingað koma.
- Þrátt fyrir lækkun pundsins fjölgaði breskum ferðamönnum hér á landi um ríflega 31% á síðasta ári og er vöxturinn álíka og hann var tvö árin þar á undan. Þó telja fleiri Bretar nú en áður að ferðin hafi ekki verið peninganna virði og dvelja þeir einnig skemur á landinu.
- Norska krónan hefur lækkað um 42% frá 2013 og fækkaði norskum ferðamönnum á Íslandi á síðustu tveimur árum.
- Verð á veitingastöðum og gistiþjónustu var 44% hærra en að meðaltali í aðildarríkjum ESB árið 2015 og er Ísland fjórða dýrasta landið m.v. samanburðarlönd.
- Verð á farþegaflutningum var 52% hærra en að meðaltali í aðildarríkjum ESB árið 2015 og er Ísland dýrasta landið m.v. samanburðarlönd.
- Verð á afþreyingar- og menningartengdum viðburðum var 38% hærra en að meðaltali í aðildarríkjum ESB árið 2015 og er Ísland þriðja dýrasta landið m.v. samanburðarlönd.
- Áfengir drykkir voru 126% dýrari á Íslandi en að meðaltali í aðildarríkjum ESB á árinu 2015 og er Ísland annað dýrasta landið m.v. samanburðarlönd.
- Föt og skór voru 53% dýrari á Íslandi en að meðaltali í aðildarríkjum ESB á árinu 2015 og er Ísland dýrasta landið m.v. samanburðarlönd.
- Önnur verslun var 33% dýrari á Íslandi en að meðaltali í ríkjum innan ESB og er Ísland fimmta dýrasta landið m.v. samanburðarlönd.
|