Lýsing |
Framtíðarsýn íslenskra stjórnvalda til 2030 er að ferðaþjónustan hafi jákvæð áhrif á nærsamfélag og aukin lífsgæði heimamanna (Stjórnarráð Íslands, e.d.). Verkefni nr. 3 í Rannsóknaráætlun Ferðamálastofu 2020-2022, sem snýr að mati á viðhorfi Íslendinga til ferðaþjónustu og ferðamanna á tilteknum tíma bæði á landsvísu og eftir landshlutum, er liður í vöktun á viðhorfum heimamanna og tekur mið af þessari framtíðarsýn (Ferðamálastofa, 2020). Viðhorf Íslendinga til ferðamanna og ferðaþjónustu hafa verið könnuð á hverju ári frá 2014 og verið hluti af reglubundinni gagnasöfnun hins opinbera síðan 2017. Verkefnið fór fram á landsvísu 2014, 2017 og 2019 og þess á milli sem tilviksrannsóknir (e. case studies) í einstökum samfélögum, þrjár til fjórar á ári. Kveikjan að þessum rannsóknum var hin hraða fjölgun í komum erlendra ferðamanna til landsins sem hófst 2011 og náði til ársins 2018 nýjum hæðum á hverju ári. Í rannsóknunum er fylgst með breytingum í viðhorfum og hvort vísbendingar komi fram um álag á heimamenn/samfélag vegna ferðamanna í heimabyggðinni. Öflun og greining gagna viðheldur samfelldri tímalínu um viðhorf heimamanna á Íslandi. Landskannanirnar styðja við álagsmat á Jafnvægisási ferðamála og lykilmælikvarða stjórnvalda til að meta árangur og ávinning ferðaþjónustunnar. |