Niðurstöður úr könnun Ferðamálastofu um upplifun og viðhorf heimamanna til skemmtiferðaskipa. Könnunin var lögð fyrir íbúa á Akureyri, Ísafirði og í Reykjavík samtímis sem símakönnun á tímabilinu 23. október til 6. nóvember 2023. Tekið var lagskipt úrtak íbúa sem náði til til 758 einstaklinga á Akureyri, 651 á Ísafirði og 754 í Reykjavík. Svarhlutfallið var svipað á Akureyri (49%) og Ísafirði (50%) en örlítið lægra í Reykjavík (43%). Lagðar voru fyrir átta spurningar um viðhorf til skemmtiferðaskipa og farþega í heimabyggð svarenda auk spurninga um bakgrunn svarenda. Rannsóknamiðstöð ferðamála hafði umsjón með verkefninu fyrir Ferðamálastofu en Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri sá um framkvæmd könnunarinnar.
Könnunin er hluti af stærra rannsóknaverkefni sem er í gangi og snýr að reglubundinni vöktun á viðhorfum Íslendinga til ferðaþjónustu og ferðamanna á landsvísu og í einstaka landshlutum. Rannsóknin miðar að því að móta tímalínu gagna um viðhorf ferðamanna og tekur mið af þeim opinberu markmiðum að ferðaþjónusta hafi jákvæð áhrif á nærsamfélag og auki lífsgæði. Niðurstaðna úr henni er að vænta á vormánuðum 2024. |