Fara í efni

Viðhorf Íslendinga til ferðamanna og ferðaþjónustu 2023

Nánari upplýsingar
Titill Viðhorf Íslendinga til ferðamanna og ferðaþjónustu 2023
Lýsing

Niðurstöður rannsóknar um viðhorf Íslendinga til ferðafólks og ferðaþjónustu, bæði á landsvísu og eftir einstaka landshlutum. Markmiðið var m.a. að leita eftir vísbendingum um það hvort landsmenn finni fyrir álagi vegna ferðamanna í heimabyggðinni. Könnunin var framkvæmd sem símakönnun á tímabilinu 27. október til 19. desember 2023. Tekið var lagskipt slembiúrtak íbúa úr þjóðskrá fyrir hvert af sjö verkefnasvæðum markaðsstofa landshlutanna. Alls fengust um 2.419 svör. Um 35 spurningar voru lagðar fyrir í könnuninni, þar af tvær opnar sem gáfu svarendum tækifæri til að lýsa með eigin orðum jákvæðustu og neikvæðustu hliðum ferðaþjónustunnar.

Ferðamálastofa fól Rannsóknamiðstöð ferðamála (RMF) að hafa umsjón með rannsókninni en um er að ræða framhald rannsókna sem voru framkvæmdar á landsvísu 2014, 2017 og 2019 auk stuttra kannana 2021-2022 sem voru gerðar fyrir Jafnvægisás ferðamála. Þess á milli hafa verið gerðar rannsóknir á nokkrum þéttbýlisstöðum.

Rannsóknin, sem er skilgreind í rannsóknaráætlun Ferðamálastofu 2023- 2025, er liður í vöktun á viðhorfum heimamanna og hluti af reglubundinni söfnun hins opinbera á samanburðarhæfum gögnum og greiningu á viðhorfum Íslendinga til ferðaþjónustu og ferðamennsku. Jafnframt tekur rannsóknin mið af þeim opinberu markmiðum að ferðaþjónusta hafi jákvæð áhrif á nærsamfélagið og auki lífsgæði.

Verkefnið safnar gögnum fyrir mælikvarða Jafnvægisáss ferðamála og fyrir markmið stjórnvalda um að landsmenn hafi jákvætt viðhorf til ferðaþjónustunnar, auk þess sem gögnin nýtast í alþjóðlegri tölfræði, svo sem við sjálfbærnivísa aðildarlanda Ferðamálaráðs Evrópu (ETC).

Höfundar
Nafn Eyrún Jenný Bjarnadóttir
Flokkun
Flokkur Viðhorf Íslendinga til ferðafólks og ferðaþjónustu
Útgáfuár 2024
Útgefandi Ferðamálastofa
Leitarorð viðhorf, þolmörk, rannsóknamiðstöð ferðamála, uppbygging, landkynning, fjöldi, fjöldi ferðamanna, stefnumótun, stefnumörkun, ímynd