Fara í efni

168 þúsund ferðamenn í mars

Ferðamenn í marsUm 168 þúsund erlendir ferðamenn fóru frá landinu í mars síðastliðnum samkvæmt talningum Ferðamálastofu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eða 52 þúsund fleiri en í mars á síðasta ári. Aukningin nemur 44,4% milli ára.

Ferðamönnum í mars fjölgaði jafnframt mikið milli ára árin á undan en aukningin var 35,3% frá 2013-2014, 26,8% frá 2014-2015 og 38,1% frá 2015-2016.
Frá áramótum hafa 452 þúsund erlendir ferðamenn farið úr landi um Keflavíkurflugvöll sem er 53,7% aukning miðað við sama tímabil í fyrra.

 

Bandaríkjamenn og Bretar tæpur helmingur

12 fjölmennustu þjóðerninBandaríkjamenn og Bretar voru tæplega helmingur ferðamanna í marsmánuði en Bandaríkjamenn voru 25,6% og Bretar 21,1%. Tíu þjóðerni sem röðuðust þar á eftir voru eftirfarandi:

  • Þjóðverjar 5,9%
  • Kanadamenn 4,4%
  • Frakkar 3,5%
  • Kínverjar 3,1%
  • Hollendingar 2,3%
  • Pólverjar 2,2%
  • Spánverjar 2,2%
  • Danir 2,0%
  • Norðmenn 1,8%
  • Ítalir 1,8%

Bandaríkjamönnum fjölgaði langmest milli ára í mars eða um 19.391 og var aukningin 82,2%. Kanadamönnum fjölgaði um 4.745, sem er nærri tvöföldun frá því í fyrra. Þjóðverjum fjölgaði um 3.817 sem er 62,6% aukning frá því í fyrra, Bretum um 2.157 sem er 5,9% aukning frá því í fyrra, Pólverjum um 2.207 og Spánverjum um 2.004 sem er meira en tvöföldun frá því í fyrra. Þessar sex þjóðir báru uppi 66% af aukningu ferðamanna milli ára í mars.

 

Ferðamenn eftir markaðssvæðumMeira en þreföldun ferðamanna í mars á fimm ára tímbili

Ferðamenn hafa meira en þrefaldast í mars á fimm ára tímabili. Þannig hafa N-Ameríkanar sexfaldast, Mið- og S-Evrópubúar meira en þrefaldast, Bretar meira en tvöfaldast og ferðamenn frá löndum sem flokkast undir annað fimmfaldast. Norðurlandabúum hefur hins vegar fjölgað í mun minna mæli eða um 11,7% á tímabilinu 2013-2017.

 

 

Hlutdeild Breta lækkar og Bandaríkjamanna hækkar í mars 2017

Hlutfall ferðamanan eftir markaðssvæðumHlutfallsleg samsetning ferðamanna hefur breyst nokkuð frá árinu 2013 eins og sjá má af myndinni hér til hliðar. Bretar voru 23,4% af heild árið 2017 sem er mun lægri hlutdeild en á tímabilinu 2013 til 2016 en þá voru Bretar tæplega þriðjungur ferðamanna. Hlutdeild N-Ameríkana hefur hins vegar aukist frá 2013 og voru þeir orðnir 30% af heild árið 2017. Hið sama má segja um hlutdeild þeirra sem falla undir annað en en hún hefur hækkað úr 16,3% árið 2013 í 24,4% árið 2017. Norðurlandabúar voru 6,1% ferðamanna í nýliðnum mars en hlutfall þeirra af heild hefur lækkað síðustu ár. Hlutdeild Mið- og S-Evrópubúa hefur hins vegar verið á líku róli á tímabilinu 2013 til 2017.

Ferðir Íslendinga utan

Um 40 þúsund Íslendingar fóru utan í mars eða álíka margir og í mars 2016. Frá áramótum hafa um 113 þúsund Íslendingar farið utan eða 14,2% fleiri en á sama tímabili árið 2016. 

Nánari upplýsingar

Talningar Ferðamálastofu ná yfir allar brottfarir frá landinu um Leifsstöð. Skiptingu milli landa má sjá í töflunni hér að neðan og nánari upplýsingar undir liðnum Tölur og útgáfur / Fjöldi ferðamanna hér á vefnum.

Ferðamenn í mars - tafla