23% fjölgun gistinátta í nóvember
Hagstofan hefur birt tölur um fjölgun gistinátta á hótelum í nóvember síðastliðnum. Þeim fjölgaði um rúmar 13 þúsund á milli ára, úr 57400 í nóvember 2006 í 70900 gistinætur í nóvemver 2006, sem er 23%.
Gistinóttum fjölgaði í öllum landshlutum nema á Suðurlandi þar sem þeim fækkaði um 20%, úr 5.900 í 4.700. Aukningin var hlutfallslega mest á Austurlandi þar sem gistinætur fóru úr 1.400 í 2.100 milli ára, 45% aukning. Á samanlögðu svæði Suðurnesja, Vesturlands og Vestfjarða fjölgaði gistinóttum úr 5.000 í 6.500, eða um 30%. Á höfuðborgarsvæðinu nam fjölgunin 28% í nóvembermánuði, en fjöldi gistinátta fór úr 42.500 í 54.300. Á Norðurlandi fjölgaði gistinóttum um 23%, úr 2.600 í 3.200.
Skiptingin milli Íslendinga og útlendinga í nóvember var þannig að gistinóttum útlendinga fjölgaði um 29% og Íslendinga um 13%. Útlendingar vega þó þyngra þar sem gistinætur þeirra eru tæp 68% af heildarfjölda gistinátta á hótelum í nóvember.
Gistirými á hótelum í nóvembermánuði jókst milli ára. Fjöldi herbergja fór úr 3.519 í 3.830, 9% aukning og fjöldi rúma úr 7.160 í 7.739, 8% aukning. Hótel sem opin voru í nóvember síðastliðnum voru 72 en 68 í sama mánuði árið 2005.
Langumfangsmesta ár í ferðaþjónustu á Íslandi
?Ég held að megi fullyrða þegar litið er til aukningar gistinátta á hótelum fyrstu 11 mánuði á ársins, svo og upplýsinga um fjölda erlendra gesta allt árið sem verða nú í fyrsta sinn yfir 400.000 á einu ári, svo og fleiri tölulegra upplýsinga, að árið 2006 sé langumfangsmesta ár í ferðaþjónustu á Íslandi frá upphafi,? segir Magnús Oddson ferðamálastjóri. ?Þetta aukna umfang, aukin nýting og fleira gefur einnig vonir um að afkoma í þessari atvinnugrein hafi batnað á árinu. Aukin áhugi fjárfesta á fyrirtækum í ferðaþjónustu svo og aukin geta ferðaþjónustufyrirtækja til innlendra og erlendra fjárfestinga gefur einnig sterkar vísbendingar um bætta afkomu," bætir hann við.
Árið 2007 væntanlega enn betra
"Ég ætla að leyfa mér að spá því að þrátt fyrir að gera megi ráð fyrir að árið 2006 hafi að flestu leyti verið besta ár ferðaþjónustu á Íslandi þá verði árið 2007 enn betra þegar litið er til ýmissa vísbendinga sem nú liggja fyrir. Nægir þar að nefna aukið framboð á stærstu markaðssvæðum okkar, verðlag í upphafi árs er samkeppnishæfara en á sama í fyrra í kjölfar gengisþróunar og enn mun samkeppnisstaðan batna við lækkun virðisaukaskatts 1. mars á mat og gistingu, svo aðeins nokkur atriði af mörgum séu nefnd," segir Magnús