26% aukning ferðamanna í nóvember
Um 46 þúsund erlendir ferðamenn fóru frá landinu í nóvember í ár samkvæmt talningum Ferðamálastofu eða um 9.500 fleiri en í nóvember á síðasta ári. Um 25,7% aukningu ferðamanna er að ræða milli ára.
Frá því Ferðamálastofa hóf talningar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar árið 2002 hefur árleg aukning í nóvember verið að jafnaði 14,3% milli ára. Sveiflur hafa þó verið miklar í brottförum milli ára eins og myndir hér til hliðar gefa til kynna.
Þriðjungur ferðamanna frá Bretlandi
Af einstaka þjóðernum voru flestir ferðamenn í nóvember frá Bretlandi (33,4%) og Bandaríkjunum (15,8%). Þar á eftir komu Norðmenn (6,0%), Þjóðverjar (5,1%), Danir (4,2%), Svíar (4,2%), Kanadamenn (3,7%) og Frakkar (3,6%). Samtals voru þessar átta þjóðir 76% ferðamanna í nóvember.
Af einstaka markaðssvæðum fjölgaði Bretum langmest. Þannig komu 5.286 fleiri Bretar í nóvember ár en í fyrra, 1.973 fleiri N-Ameríkanar, 1.310 fleiri ferðamenn frá Mið- og S-Evrópu og 1.412 fleiri frá öðrum markaðssvæðum. Norðurlandabúum fækkaði hins vegar um 480.
740 þúsund ferðamenn frá áramótum
Frá áramótum hafa 739.328 erlendir ferðamenn farið frá landinu eða um 120 þúsund fleiri en á sama tímabili í fyrra. Aukningin nemur 19,5% milli ára. Um 41% fleiri Bretar hafa heimsótt landið, fjórðungi fleiri N-Ameríkanar, ríflega fjórðungi fleiri frá löndum sem flokkast undir annað og um 14% fleiri Mið- og S-Evrópubúar. Norðurlandabúum hefur hins vegar fjölgað mun minna eða um 2,4%.
Ferðir Íslendinga utan
Um 29 þúsund Íslendingar fóru utan í nóvember eða um 2.600 fleiri en í fyrra. Frá áramótum hafa um 340 þúsund Íslendingar farið utan eða 3.539 fleiri en í nóvember árið 2012.
Nánari upplýsingar
Talningar Ferðamálastofu ná yfir allar brottfarir frá landinu um Leifsstöð. Skiptingu milli landa má sjá í töflunni hér að neðan og nánari upplýsingar undir liðnum Tölur og útgáfur / Fjöldi ferðamanna hér á vefnum.